Innlent

Með eina af fréttamyndum ársins hjá Reuters

Valur Grettisson skrifar
Glæsileg mynd.
Glæsileg mynd. Mynd / Ingólfur Júlíusson.

„Ég hef verið að mynda fyrir Reuters í tvö ár," segir Ingólfur Júlíusson en stærsta fréttaveita heims, Reuters, hefur valið fréttamynd Ingólfs sem eina af 150 bestu myndum ársins.

Ljósmyndin er af bóndanum Þórarni Ólafssyni þar sem hann reynir að koma hesti í skjól frá öskunni úr Eyjafjallajökli. Eins og sést þá er myndin dramatísk og lýsir nokkuð vel erfiðum aðstæðum bænda sem voru í miklu návígi við eldgosið í Eyjafjallajökli.

„Það er ótrúlega gaman að fá að vera í þessum hópi," segir Ingólfur sem byrjaði að vinna fyrir Reuters eftir bankahrunið. Hann segir heimspressuna hafa haft ótrúlegan áhuga á Íslandi síðustu tvö ár enda sérstaklega viðburðarík ár.

Ingólfur Júlíusson á vettvangi.

„Þar sem menn eru að tapa peningum, þar er einfaldlega áhugi," segir Ingólfur og vitnar þar til áhuga erlendra fjölmiðla á bankahruninu, Icesave og svo eldgosinu.

Ingólfur segir Reuters svo hafa haft samband við sig á dögunum þar sem honum var sagt að myndirnar sem hann tók á árinu yrðu sendar í nafni Reuters í alþjóðlegar fréttaljósmyndakeppnir.

„Þannig það er nú aldrei að vita hvort myndirnar nái frekari athygli," segir Ingólfur. Aðspurður hvaða mynd honum finnist flottust af þeim 150 myndum sem Reuters valdi, svarar Ingólfur því til að hann geti ekki gert upp við sig.

„Þær eru allar svo flottar," segir hann.

Myndirnar má skoða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×