Innlent

Helga Sigríður fékk í raun kransæðastíflu

„Þegar ég kom að henni lá hún köld á gólfinu," lýsti móðir Helgu Sigríðar Sigurðardóttir, María Egilsdóttir, þegar hún kom að dóttur sinni eftir að hún hné niður. María var í viðtali í Íslandi í dag í kvöld.

Helga Sigríður, sem er Tólf ára gömul stúlka frá Akureyri, hneig niður á miðvikudaginn í skólanum og er komin til Svíþjóðar þar sem hún fær hugsanlega nýtt hjarta.

Áður var hún í hjarta og lungnavél á gjörgæsludeild Landspítalans þar sem hún barðist fyrir lífi sínu.

Samkvæmt lækni sem rætt var við í Íslandi í dag þá fékk Helga Sigríður í raun kransæðastíflu en veikindi hennar flokkast í raun ekki sem hjartagalli.

„Það er mjög óvanalegt að fá svona unga manneskju með kransæðastíflu," sagði hann í viðtalinu í Íslandi í dag.

Móðir Helgu segist endalaust þakklát heilbrigðistarfsfólkinu hér á landi.

„Það var allt gert rétt, allt gekk upp og það er ótrúlega fært fólk sem kom að þessu. Maður er stoltur af íslenska heilbrigðiskerfinu," sagði María um vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólksins sem hefur komið að aðhlynningu dóttur hennar.

Núna eru þær mæðgur í Svíþjóð og bíða í von og ótta hvað gerist á næstu vikum og mánuðum.

„Maður þorir varla að sofna en það er lítið annað hægt en að bíða," sagði María í símaviðtali frá Svíþjóð. Hún segist þakklát því að dóttir hennar virðist ekki vera heilasködduð.

En baráttunni er langt því frá lokið.

„Þetta er rússibanareið. Við erum glöð eina stundina og grátum þá næstu," sagði María þegar hún lýsti erfiðri upplifun sinni og fjölskyldunnar.

Hún segist vongóð um að dóttir hennar nái bata en það er þó ómögulegt að segja nokkuð til um það. Ekki er ljóst hvort hún fær nýtt líffæri.

Hægt er að skoða viðtalið í viðhengi hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×