Innlent

Skrifar handrit um Silungapoll

Guðrún Ragnarsdóttir skrifar um þessar mundir kvikmyndahandrit sem hefur verið gefið vinnuheitið Silungapollur, eftir samnefndu vistheimili við Rauðhóla.
Fréttablaðið/Valli
Guðrún Ragnarsdóttir skrifar um þessar mundir kvikmyndahandrit sem hefur verið gefið vinnuheitið Silungapollur, eftir samnefndu vistheimili við Rauðhóla. Fréttablaðið/Valli
„Þetta er saga um ótrúlega bjartsýni og um að komast af," segir kvikmyndagerðarmaðurinn Guðrún Ragnarsdóttir. Guðrún fékk styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands til að halda áfram með kvikmyndahandrit sem hefur verið gefið vinnuheitið Silungapollur. Guðrún segir handritið vera byggt á atvikum sem þarna áttu sér stað en tekur skýrt fram að þetta sé ekki heimildarmynd heldur leikin mynd í fullri lengd.

„Myndin gerist á þeim tíma þegar börn höfðu enga rödd og ekki var komið fram við þau eins og manneskjur," útskýrir Guðrún og bætir því við að handritið sýni að það líði engum vel hjá vandalausum.

Silungapollur var eitt þeirra vistheimila sem Reykjavíkurborg starfrækti á árunum 1945 til 1970 fyrir börn sem glímdu við erfiðar heimilisaðstæður. Börnin sem voru þarna í vist voru mjög ung að árum, á aldrinum þriggja til sjö ára en samkvæmt skýrslu Vistheimilisnefndar sem birt var í september á þessu ári kom fram að húsakosturinn hefði ekki verið nægjanlega góður, eftirliti ábótavant og að of mörg börn hafi verið vistuð þarna á sama tíma. Guðrún segir handritið hafa verið lengi í vinnslu, raunar fyrir Breiðavíkur-uppljóstrunina miklu.

„Handritið fer alveg að verða tilbúið og þetta hefur gengið mjög vel, allavega hafa framleiðslufyrirtæki sýnt handritinu áhuga en það er ekki alveg algilt."- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×