Innlent

Ónýt raftæki til styrktar Fjölskylduhjálpinni

Hægt er að koma með gömul og ónýt smáraftæki í verslanir Símans sem sendir þau í endurnýtingu og rennur söluandvirði til Fjölskylduhjálparinnar
Hægt er að koma með gömul og ónýt smáraftæki í verslanir Símans sem sendir þau í endurnýtingu og rennur söluandvirði til Fjölskylduhjálparinnar
Síminn hvetur fólk til þess að styðja starf Fjölskylduhjálpar Íslands fyrir jólin með því að koma með gömul og ónýt smáraftæki í verslanir fyrirtækisins. Tækin verða send í endurnýtingu og mun andvirði af sölu þeirra renna til Fjölskylduhjálparinnar.

Með því að koma með gömul og ónýt smáraftæki í verslanir Símans geta viðskiptavinir einnig lagt sitt á vogarskálarnar í umhverfisvernd.

Meðal þess búnaðar sem Síminn mun taka við eru GSM símar, fartölvur, leikjavélar, stafrænar myndavélar, MP3 spilarar, stafrænar upptökuvélar

og netlyklar. Tekið er á móti búnaðinum í öllum verslunum Símans; í Smáralind, Kringlunni, Ármúla og á Glerártorgi Akureyri fram að jólum.

Fyrirtækið Græn framtíð annast flutning á búnaðinum til vottaðra endurnýtingarfyrirtækja í Evrópu.

„Við úthlutum matvælum til 600 fjölskyldna á hverjum miðvikudegi og gerum við ráð fyrir að sú tala fari upp í 1.000 fjölskyldur vikulega. Neyðin er mikil og þess vegna fögnum við framtaki Símans og vonum að sem flestir sjái sér fært um að leggja okkur lið," segir Ásgerður Jóna

Flosadóttir hjá Fjölskylduhjálp Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×