Erlent

Fyrirskipaði að njósnað skyldi um SÞ

Julian Assange. Wikileaks lá niðri fram eftir degi í gær eftir árás tölvuþrjóta í aðdraganda skjalabirtingarinnar.Fréttablaðið/AP
Julian Assange. Wikileaks lá niðri fram eftir degi í gær eftir árás tölvuþrjóta í aðdraganda skjalabirtingarinnar.Fréttablaðið/AP

Upplýsingar úr 250 þúsund leynilegum skjölum sem vefsíðan Wikileaks hefur undir höndum, voru birtar í fjölmiðlum víða um heim í gærkvöldi. Skjölin sem um ræðir koma úr sendiráðum Bandaríkjanna um allan heim og veita sjaldséða innsýn í starfsemi bandarísku utanríkisþjónustunnar.

Meðal þess sem kemur fram í skjölunum er að Abdullah, konungur Sádi-Arabíu, og fleiri leiðtogar í arabaheiminum hafa hvatt Bandaríkin til að gera innrás í Íran til bregðast við tilraunum Írana til að koma sér upp kjarnavopnum. Þar er einnig lýst yfir miklum áhyggjum af öryggi kjarnaefna í Pakistan sem nota mætti til að smíða kjarnavopn og sagt er frá umfangsmiklu tölvuþrjótaneti kínverskra stjórnvalda.

Bandarísk stjórnvöld fordæmdu skjalabirtinguna í gær og sögðu hana stefna lífi bandarískra ríkisborgara í hættu. Julian Assange, stofnandi Wikileaks, vísaði gagnrýninni á bug og sagði bandarísk stjórnvöld hrædd við að svara fyrir gjörðir sínar.

Tölvuþrjótar réðust á Wikileaks um miðjan dag í gær og lá síðan niðri fram á kvöld. Nokkrir alþjóðlegir fjölmiðlar, þar á meðal New York Times og The Guardian, höfðu hins vegar fengið aðgang að skjölunum með fyrirvara og birtu upplýsingar úr þeim í gærkvöldi.

Einhvers misskilnings virðist gæta um tengsl Wikileaks við Ísland því Liz Cheney, fyrrum starfsmaður í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og dóttir Dicks Cheney fyrrum varaforseta, kom fram á sjónvarpsstöðinni Fox News í gær og hvatti þar íslensk stjórnvöld til að loka fyrir vefsíðuna.

Í skjölunum kunna að leynast upplýsingar um samskipti Bandaríkjamanna við íslensk stjórnvöld eða lýsingar á íslenskum stjórnmálamönnum. Enginn þeirra fjölmiðla sem fengið hafa aðgang að skjölunum hafði þó fjallað um íslensk málefni í gærkvöldi, en í gögnum á vefsíðu Guardian kemur fram að alls 290 skjöl eru frá sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík. Nýjasta skjalið er frá 24. febrúar 2010 en það elsta frá 20. desember 2005.

magnusl@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×