Erlent

Enn eitt áfall fyrir Silviu drottningu

Óli Tynes skrifar
Sænsku konungshjónin.
Sænsku konungshjónin.

Silvia Svíadrottning hefur orðið fyrir enn einu áfallinu. Í fréttaskýringaþætti í sænska sjónvarpinu í gær var því haldið fram að faðir hennar Walther Sommerlath hafi verið miklu tengdari nazistahreyfingunni en hingaðtil hefur komið fram. Löngu var vitað að Sommerlath hafði gengið í nazistaflokkinn árið 1934.

Í sjónvarpsþættinum var því hinsvegar haldið fram að hann hafi yfirtekið fyrirtæki í eigu gyðinga. Það hafi verið liður í áformum nazista um að gera veg aría sem mestan. Í yfirlýsingu frá konungshöllinni segir að drottningin harmi aðild föður síns að nazistaflokknum. Það hafi hún þó fyrst fengið að vita eftir að hún var orðin fullorðið og aldrei rætt málið við föður sinn.

Bróðir drottningarinnar Rald de Tolido Sommerlath tekur þessu ekki af sömu stillingu og systir hans. Hann segir fullyrðingarnar tóma lygi og hótar sænska sjónvarpinu málshöfðun.

Ekki eru nema fáar vikur liðnar frá því drottningin mátti þola mikla umræðu um gjálífi bónda síns og framhjáhald hans.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×