Innlent

Stjórnlagaþing: Úrslit liggja fyrir síðar í dag

Ástráður Haraldsson formaður landskjörstjórnar.
Ástráður Haraldsson formaður landskjörstjórnar.

Úrslit í kosningum til stjórnlagaþings liggja fyrir seinnipartinn í dag eða snemma í kvöld ef ekkert óvænt kemur upp við talninguna. Kjósandi á Álftanesi hefur kært kosningarnar þar til landskjörstjórnar.

Kjörstöðum var almennt lokað klukkan tíu á laugardagskvöld, en kjörstað á Álftanesi var hins vegar lokað klukkan níu. Kjósandi í kjördæminu sem ætlaði að kjósa eftir klukkan níu er ekki sáttur og hefur kært málið til landskjörstjórnar.

Ástráður Haraldsson formaður landskjörstjórnar segir að stjórnin muni skila áliti sínu á málinu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn á Álftanesi hafi fyrirfram verið ákveðið að hafa opið til klukkan níu og hafi það verið auglýst. Komist landskjörstjórn að þeirri niðurstöðu að ekkert sé athugavert við framkvæmd kosninganna á Álftanesi, getur kjósandinn kært málið til úrskurðar hjá Hæstarétti, efist hann um gildi kosninganna. Telji hann að um refsivert athæfi hafi verið að ræða samkvæmt lögum um kosningarnar, getur hann kært málið til lögreglu.

Ástráður segir að skönnun atkvæðaseðla ljúki um eða upp úr hádegi. Ástráður segir óljóst hversu langan tíma þessi vinna taki en hann vonist til að úrslit geti legið fyrir á þessum sólarhring.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×