Innlent

Áminningin dregin til baka

Gísli Ragnarsson
Gísli Ragnarsson
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur dregið til baka áminningu sem forveri hennar í embætti veitti Gísla Ragnarssyni, skólameistara Fjölbrautaskólans við Ármúla, í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis.

Skólameistarinn var árið 2008 sakaður um að hafa oftalið fjölda nemenda sem luku prófi í dönsku við skólann árið 2005, með þeim afleiðingum að fjárframlög ríkisins til skólans hafi verið hærri en þau hefðu átt að vera. Hann var í kjölfarið áminntur.

Baldur Gíslason, skólameistari Tækniskólans, var áminntur fyrir sömu sakir. Hann ætlar nú að fara fram á að áminning hans verði dregin til baka. Þrír skólameistarar til viðbótar fengu tiltal.

Gísli og Baldur sögðu frá upphafi að ásakanirnar væru tilhæfulausar. Þeir óskuðu báðir eftir því að ráðuneytið drægi áminninguna til baka, en því var hafnað.

Gísli skaut málinu í kjölfarið til umboðsmanns Alþingis, sem komst nýverið að þeirri niðurstöðu að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, hafi ekki gætt jafnræðis þegar hún áminnti Gísla en veitti þremur öðrum skólameisturum tiltal vegna sambærilegra saka.

Í kjölfarið óskaði Gísli eftir því að menntamálaráðherra drægi áminninguna til baka, og varð ráðherra við því 4. nóvember síðastliðinn.

Umboðsmaður tók ekki afstöðu til þess hvort ásakanirnar áttu við rök að styðjast. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×