Innlent

Furðustrandir mest seld í Eymundsson

Eymundsson. Bækur.
Eymundsson. Bækur.

Glæpasaga Arnalds Indriðasonar, Furðustrandir, var mest selda bók vikuna 8. - 14. desember samkvæmt metsölulista Eymundsson. Í öðru sæti situr draugasagan Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Þar á eftir kemur Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson en sú bók hefur verið að fá einstaklega góða bókadóma undanfarið.

Ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson, er eina ævisagan sem ratar á listann þessa vikuna. Fast á eftir henni kemur svo stelpufræðarinn Stelpur eftir systurnar Þóru og Kristínu Tómasardætur.

Hnakkatrölli Gillz vermir sjötta sætið með handbókina Lífsleikni.

Óvæntur nýliði á listanum hlýtur að vera Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson. Sú bók er viðtalsbók við framliðna og hefur vakið gífurlega athygli.

Í áttunda sætinu er svo bókin Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur. Á eftir henni kemur matreiðslubókin Eldað með Jóa Fel. Í tíunda sætinu situr Íslandsvinurinn Sofi Oksanen með bók sína Hreinsun. Það er jafnframt eina erlenda skáldsagan á listanum þessa vikuna.

Hér fyrir neðan má nálgast listana í fylgiskjali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×