Innlent

Tvöfalt fleiri greinast með lystarstol

Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir.
Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir.

Fjöldi þeirra sem leggjast inn á geðdeildir vegna lystarstols hefur tvöfaldast hér á landi á 26 árum. Eru það niðurstöður nýrrar rannsóknar: Lystar­stol 1983-2008: innlagnir, sjúkdómsmynd og lifun, sem birt er í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Rannsóknin byggir á sjúkraskrám þeirra sem lagðir voru inn á geðdeildir á Íslandi á tíma­bilinu 1. janúar 1983 til ársloka 2008, þar sem lokaúrtak var 84 einstaklingar, þar af 79 konur og 5 karlar. Meðalaldur sjúklinga var 18,7 ár og hafa tvær konur látist vegna sjúkdómsins á rannsóknartímabilinu, sem er lægra hlutfall en á Vesturlöndum.

Rannsókninni var skipt niður í tvö tímabil, 1983 til 1995 og 1996 til 2008. Á fyrra tímabilinu voru nýjar innlagnir vegna lystarstols 1,43 á hverja 100.000 íbúa á ári, 11 til 46 ára. Á seinna tímabilinu fjölgaði tilfellum um meira en 100 prósent, en þá voru innlagnir 2,91 á hverja 100.000 íbúa.

Guðlaug Þorsteinsdóttir, geðlæknir hjá göngudeild geðsviðs Landspítalans, segir að tilvikin séu þrátt fyrir allt mjög fá og alvarleg tilfelli af átröskunum og lystarstoli séu afar sjaldgæf. Aukningu nýrra tilfella megi rekja til aukins nýgengis innlagna hjá barna- og unglinga­geðdeild Landspítalans.

„Það er marktæk aukning síðustu tíu árin, en þetta eru svo fáir einstaklingar að það er erfitt að draga ályktanir," segir Guðlaug. „En upplýsingum um nýgengi tilfella á Íslandi utan stofnana er enn ábótavant."

Meðallengd fyrstu innlagnar var 98 dagar á fullorðinsdeildum og 130 á unglingadeildum. Alls voru tíu einstaklingar vistaðir nauðugir. Rannsóknin sýndi fram á að algengt er að lystarstols­sjúklingar skaði sjálfa sig eða reyni að fremja sjálfsvíg inni á geðdeildum.

Á rannsóknartímabilinu var hlutfall þeirra sem lögðust inn oftar en einu sinni um fjörutíu prósent. Eftir að átröskunarteymi Land­spítalans var komið á árið 2006 hefur legudögum lystarstolssjúklinga fækkað og meðferðar­úrræði verið bætt.

„Enn vantar þó viðeigandi eftir­meðferðarúrræði, meðferðarheimili þar sem fólk getur verið í endurhæfingu, eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar," segir Guðlaug. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×