Innlent

Hófu formlegan undirbúning að olíuleit við Jan Mayen

Norsk stjórnvöld hófu í vikunni formlegan undirbúning að olíuleit við Jan Mayen með þeim rökum að nauðsynlegt sé fyrir norskan olíuiðnað að finna nýjar auðlindir. Norðmenn gera þó ekki ráð fyrir að olíuvinnsla hefjist þar fyrr en eftir tíu til fimmtán ár.

Opnun Jan Mayen-svæðisins er í stjórnmálaumræðunni í Noregi sögð vera skálkaskjól í deilum innan ríkisstjórnarflokkanna um hvort leyfa eigi olíuleit á nýjum svæðum við Norður-Noreg, við Lófóten og í Vesturál. Ríkisstjórnin fyldi málinu úr hlaði með útgáfu skýrslu um Jan Mayen en þar er því lýst að spár geri ráð fyrir að verulega dragi úr olíuvinnslu Noregs á næstu 20 árum. Til að koma í veg fyrir þann samdrátt sé nauðynlegt að halda áfram að leita að olíu og gasi á þeim svæðum sem vænlegust þykja. Vonir séu bundnar við að enn eigi eftir að finnast stórar auðlindir í norskri lögsögu og því sé þetta nýja svæði opnað til leitar.

Svæðið er suður og vestur af Jan Mayen, og nær að lögsögumörkum Íslands. Það er í beinu framhaldi af Drekasvæði Íslendinga, og svo heppilega vill til fyrir Íslendinga að í gildi er samningur milli þjóðanna um gagnkvæman 25 prósenta nýtingarrétt á hluta svæðisins en réttur Íslands nær þó yfir mun stærra svæði Noregsmegin. Áætlun Norðmanna gerir ráð fyrir að fyrst verði farið út í nákvæmari hljóðbylgjurannsóknir, botnlagsrannsóknir og grunnar boranir. Bent er á að reynslan sýni að tíu til fimmtán ár líði þar til olíuvinnsla hefjist og því sé ekki við því að búast að framleiðsla hejfist á Jan Mayen-svæðinu fyrr en á árunum 2020 til 2030.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×