Innlent

Leiðin milli Flúða og Reykholts styttist um 26 kílómetra

Nýja brúin var opnuð í dag.
Nýja brúin var opnuð í dag.
Í dag var ný brú yfir Hvítá við Bræðratungu opnuð fyrir almennri umferð. Brúin styttir vegkaflann á milli Flúða og Reykholts um 26 kílómetra og verður hann nú rétt rúmir 20 kílómetrar. Stytting vegkaflans skiptir miklu máli fyrir íbúa svæðisins og alla sem eiga þar leið um. Grænmetisbændur sitt hvorum megin við ána ákváðu að gefa grunnskólum hvors annars ferskt grænmeti í desembermánuði til að halda upp á samgöngubótina.

Nýja brúin kemur að sjálfsögðu að góðum notum fyrir grænmetisbændur sem þurfa nú að flytja vöru sína um skemmri veg. „Það er óhætt að segja að brúin sé með stærstu samgöngubótum á Suðurlandi í áratugi, en hún opnar ótal möguleika í atvinnu- og búsetu auk fjölda tækifæra í ferðaiðnaði. Uppsveitir Árnessýslu eru mikil matarkista og nýi vegurinn auðveldar flutning grænmetis á markað og þannig má segja að brúin nýtist allri þjóðinni líka," segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×