Innlent

Einungis þrír í þrot vegna meðlaga

Dæmi eru um að menn skuldi fimmtán milljónir í meðlög.Fréttablaðið / valli
Dæmi eru um að menn skuldi fimmtán milljónir í meðlög.Fréttablaðið / valli
Innheimtustofnun sveitarélaga, sem sér um að innheimta meðlagsskuldir, hefur einungis í þrígang frá upphafi keyrt skuldara í þrot. Þetta segir Jón Ingvar Pálsson, forstjóri stofnunarinnar.

Ef menn greiða ekki meðlag getur Innheimtustofnunin haldið eftir ákveðnu hlutfalli launa þeirra, en ef launum er ekki til að dreifa þarf oft að óska eftir fjárnámi. Reynist það árangurslaust og engar eignir fást upp í skuldirnar knýr Innheimtustofnunin menn samt sem áður ekki í þrot.

„Ef við færum með allt þetta fólk í þrot, og þyrftum að greiða 250 þúsund krónur í tryggingu í hvert skipti, þá held ég að það myndi ekki svara kostnaði,“ segir Jón Ingvar. Stofnunin hafi aðeins þrívegis keyrt menn í þrot. Í þeim tilfellum hafi verið grunur um óeðlilega gjafagerninga, kaupmála eða annað til að skjóta eignum undan fjárnáminu.

Fram hefur komið að einstaklingar skuldi mest 15 milljónir króna í meðlag. „Það er engin afsökun fyrir að vera í svona stórri skuld á meðlögum,“ segir Jón Ingvar, enda hafi Innheimtustofnunin upp á ýmis samningsúrræði að bjóða fyrir fólk í greiðsluvanda. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×