Innlent

Margbrotinn eftir að hafa lent fyrir strætisvagni

Valur Grettisson skrifar
Þorsteinn K. Kristiansen er ansi illa haldinn þessa daganna. Hann er ósáttur við vagnstjóra.
Þorsteinn K. Kristiansen er ansi illa haldinn þessa daganna. Hann er ósáttur við vagnstjóra.

„Ég var á leiðinni í vinnustaðapartí í Hjálpræðishernum þegar þetta gerðist,“ segir starfsmaður Hjálpræðishersins, Þorsteinn K. Kristiansen, sem varð fyrir strætisvagni á laugardagskvöldið. Þorsteinn fót- og handleggsbrotnaði og þarf líklega að vera í gifsi næstu fimm vikurnar.

Þorsteinn, sem er stuðningsfulltrúi fyrir áfengis- og fíkniefnaneytendur í Hjálpræðishernum, var að hjóla niður hjólastíg á Suðurgötunni á laugardaginn.

Þegar hann var að koma að gatnamótum Vonarstrætis og Suðurgötu beygði strætó inn á Suðurgötuna. Vagnstjórinn virðist hafa verið ansi plássfrekur að sögn Þorsteins þar sem hann keyrði í veg fyrir hann.

Fyrir vikið hjólaði Þorsteinn beint á strætisvagninn og kastaðist, ásamt hjólinu, upp á gangstéttina.

Hann var fluttur í flýti upp á spítala og kom þá í ljós að hann hafði tvíbrotnað á rist auk þess sem hann úlnliðsbrotnaði.

„Ég er reyndar rosalega þakklátur að hafa sloppið svona vel," segir Þorsteinn sem fer allar sínar leiðir hjólandi. Hann segist hinsvegar ekki sáttur við aksturslag bílstjórans sem ók í veg fyrir hann.

Þorsteinn segist hafa snöggreiðst honum þar sem hann lá brotinn á gangstéttinni. Meðal annars spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann hefði ekið alveg að gangstéttarkantinum. Bílstjórinn svaraði því til að sögn Þorsteins að hann hefði ætlað að forðast holu sem hefði verið á veginum.

Þorsteini er brugðið eftir að hafa lent í slysinu. Ekki síst vegna þess að hann hjólaði eftir hjólreiðastíg.

„Ef maður er einhverstaðar öruggur þá hlýtur það að vera á sérmerktum stíg," segir Þorsteinn sem hefur ekki kannað réttarstöðu sína eftir óhappið. Hann veit ekki einu sinni hvort málið sé í rannsókn en það er ljóst að hann er frá vinnu næstu vikurnar.

„Það er viðhorf margra að hjólreiðarmenn séu bara á eigin ábyrgð í umferðinni," segir Þorsteinn sem þykir ökumenn almennt skilningslausir gagnvart hjólreiðafólki.

Sjálfur fær hann það stundum á tilfinninguna að borginni sé ekki heldur alvara með hjólreiðamenninguna.

Aðspurður hvað taki nú við svarar Þorsteinn því að nú liggi hann heima og geti lítið athafnað sig vegna meiðslanna.

Þá er óvíst hvort hann þurfi að fara í aðgerð vegna meiðslanna, „læknar eru að velta því fyrir sér hvort ég þurfi skrúfu í fótinn," segir Þorsteinn en það mat fer fram í desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×