Innlent

Kallar eftir framtíðarstefnu

Hannes 
Friðriksson
Hannes Friðriksson
Fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Fasteigna Reykjanesbæjar ehf., sem heldur utan um félagslega íbúðakerfið í bænum, hefur kallað eftir skýrri framtíðarsýn sjálfstæðismanna í meirihlutanum varðandi félagið.

Endurskoðandi félagsins hefur síðustu ár bent á að til þess að leysa rekstrarvanda félagsins þurfi annað hvort framlag frá Reykjanesbæ eða að leggja í lántökur.

„Ég vil vita hvert meirihlutinn ætlar sér með félagslega kerfið og þetta félag," segir Hannes Friðriksson, fulltrúi Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttablaðið. „Ætla þeir að leggja inn þetta fjárframlag sem er kallað eftir eða fara aðrar leiðir."

Böðvar Jónsson, stjórnarformaður Fasteigna Reykjanesbæjar og forseti bæjarstjórnar, segir í samtali við Fréttablaðið að ljóst sé að félagið hafi ekki getað unnið sig sjálft út úr erfiðleikunum.

„Við þurfum að meta hvernig félagið geti orðið rekstrarhæft til framtíðar. Það er sjálfsagt að gera og góð ábending." Um 230 íbúðir eru í kerfinu, en nýlega var ákveðið að hækka leiguverð í hluta þeirra. Að sögn Böðvars var það til að fylgja vísitölu og viðmiðum Íbúðalánasjóðs.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×