Innlent

Íhuga að leggja fram kæru

Hluti af smyglvarningnum.
Hluti af smyglvarningnum. Mynd/mats.is

Landssamband hestamanna íhugar að leggja fram kæru á hendur manni sem tekinn var með notuð reiðtyg í tollinum. "Grafalvarlegt mál" segir formaðurinn.

Notuð reiðtygi og óhreinn reiðfatnaður fundust í gær við tollskoðun á bíl sem var að koma erlendis frá með gámaflutningaskipi. Bíllinn var einnig mjög óhreinn og var greinilega að koma beint úr umhverfi hesta.

Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamanna lítur málið mjög alvarlegum augum.

„Hvort þetta var tilraun til smygls eða hvað þá lítum við þetta alvarlegum augum miðað við þá stöðu sem við erum í í dag," segir Haraldur og tekur fram að ekki sé enn hafi verið komist yfir smitfaraldur sem herjar á íslenska hesta. „Þetta er grafalvarlegt mál, við munum fylgja þessu máli fast eftir."

Það sama er að segja um Matvælastofnun enda hefði innflutningurinn falið í sér mikla hættu á að nýr smitsjúkdómur bærist í íslenska hrossastofninn eða aðrar dýrategundir.

Haraldur segir að eftir því sem hann best viti muni Matvælastofnun ælta að fylgja málinu eftir.

„En ef að hún leggur ekki fram kæru og fylgir þessu eftir þá munum við gera það. Við teljum eðlilegt að því sé fylgt eftir samkvæmt landslögum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×