Innlent

Neyðarlögin brjóta ekki gegn ákvæðum EES-samningsins

Alþingishúsið.
Alþingishúsið.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að loka sjö kvörtunarmálum er varða íslensku neyðarlögin þar sem stofnunin telur að lögin brjóti ekki gegn ákvæðum EES-samningsins samkvæmt upplýsingum sem finna má á heimasíðu eftirlitsstofnunarinnar.

Við hrun íslensku bankanna í október 2008 samþykkti Alþingi neyðarlögin sem miðuðu að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því.

Lögin gerðu innstæður á bankareikningum að forgangskröfum við gjaldþrotaskipti banka. Innstæður nutu þar með forgangs gagnvart öðrum ótryggðum kröfum. Lögin veittu jafnframt Fjármálaeftirlitinu heimildir til að taka yfir eignir og skuldbindingar föllnu bankanna og ráðstafa þeim til nýju bankanna.

Fyrir bankahrunið höfðu nokkrir erlendir bankar lánað íslenskum bönkum háar fjárhæðir. Þessir erlendu bankar kvörtuðu undan því við ESA að þeir hefðu mátt þola ólögmæta mismunun vegna ákvæða neyðarlaganna og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins sem áhrif hefðu á úthlutun eigna til kröfuhafa úr þrotabúum bankanna.

ESA hefur komist að þeirri niðurstöðu að innstæðueigendur eru í annari aðstöðu en almennir kröfuhafar og eiga tilkall til ríkari verndar við greiðsluþrot banka.

Það er niðurstaða stofnunarinnar að hvorki neyðarlögin né ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hafi falið í sér ólögmæta mismunun gagnvart almennum kröfuhöfum. Því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Jafnframt telur stofnunin að hefði niðurstaðan orðið sú að þessar ráðstafanir hefðu verið taldar hamla frjálsu flæði fjármagns hefðu þær samt sem áður verið réttlætanlegar.

"Þessi niðurstaða er mjög mikilvæg að því er varðar forsendur fyrir úthlutun eigna úr þrotabúum gömlu bankana og fyrir endurskipulagningu íslenska bankakerfisins" segir Per Sanderud, forseti ESA, á heimasíðu stofnunarinnar.

Ákvörðunin um að loka málunum leysir ekki úr álitaefnum er varða tilskipun um innstæðutryggingar og mismunun á milli innstæðueigenda á Íslandi og innstæðueigenda sem áttu innstæður í útibúum íslensku bankanna í öðrum EES-ríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×