Innlent

Veruleg hækkun á bensínverði

Gissur Sigurðsson skrifar
Veruleg hækkun á bensínverði er framundan. Mynd/ GVA.
Veruleg hækkun á bensínverði er framundan. Mynd/ GVA.
Veruleg hækkun á verði bensíns liggur í loftinu eftir að tonnið af bensíni fór yfir 800 dollara á heimsmarkaði í gær. Sérfræðingar búast við að hækkunin geti orðið að minnsta kosti fimm krónur á lítrann og reið Skeljungur á vaðið nú á tólfta tímanum.

Miðað er við óbreytta álagningu olíufélaganna. Frá síðustu mánaðamótum hefur heimsmarkaðsverð á bensíni hækkað um 59 dollara tonnið, auk þess sem dollarinn hefur hækkað úr 112 krónum upp í tæpar 117 krónur núna, en olíuviðskiptin eru gerð í dollurum. Það þarf því mun fleiri dollara fyrir hvert bensín tonn núna en um mánaðamótin og enn fleiri krónur á bak við hvern dollara, en um mánaðamótin.

Raunhæft er að bera saman tölurnar nú og þá, því bensínhækkunin sem varð hér á landi fyrr í mánuðinum gekk nær alveg til baka nokkrum dögum síðar, þannig að lítrinn er aðeins 20 aurum dýrari nú, en hann var fyrir mánuði. Dísilolían, sem er á álíka verði og bensín, í smásölu hér á landi, hefur hækkað örlítið minna en bensínið á heimsmarkaði og hækkar því væntanlega heldur minna þegar þar að kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×