Innlent

Herjólfur strandaði um stund

Gissur Sigurðsson skrifar
Herjólfur strandaði um stund á miðnætti. Mynd/ Arnþór.
Herjólfur strandaði um stund á miðnætti. Mynd/ Arnþór.
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur strandaði um stund, þegar skipið var að leggja af stað með 500 farþega frá Landeyjahöfn áleiðis til Vestmannaeyja á miðnætti í gærkvöldi. Siglingastofnun hefur þegar gripið til aðgerða til að tryggja siglingu skipsins um höfnina.

Strax og skipið losnaði eftir miðnætti var ljóst að engar skemmdir höfðu orðið og var því haldið út til Eyja með farþegana. Hinsvegar var ferðinni, sem fara átti klukkan þrjú í nótt, seinkað framundir morgun, eða fram yfir há fjöruna, en nú er stórstreymt og því mikill munur á flóði og fjöru. Að sögn Siglingastofnunar var ekki alveg búið að dýpka höfnina eins og áætlað var, þegar hún var tekin í notkun og nú er komið í ljós að meiri gosaur hefur borist í hana en reiknað var með. Hann hafi sennilega hlaðist upp í hól undir farmanverðu skipinu, þegar það reyndi að bakka frá bryggju í gærkvöldi.

Stofnunin hóf dýptarmælingar í morgun og að minnsta kosti ein stórvirk vél er byrjuð á dýpkunaraðgerðum. Ferð, sem Herjóflur átti að fara frá Landeyjahöfn nú í hádeginu var flýtt um hálftíma, og er útlit fyrir að einni síðdegisferð verði frestað í dag, vegna sjávarfalla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×