Innlent

Fimmtungur öryrkja með minna en 150 þúsund á mánuði

Gap er á milli þeirra öryrkja sem minnstar hafa tekjurnar og hinna sem hafa hæstar tekjur. Tæpur fimmtungur öryrkja er með minna en 150 þúsund krónur á milli handanna í mánuði, en á áttunda hundrað öryrkja hafa meira en 350 þúsund krónur.

Öryrkjar hafa mótmælt fréttaflutningi Stöðvar 2 undanfarið og meðal annars sagt að dæmi einnar konu gefi villandi mynd af kjörum öryrkja almennt. Aðrir segja að stokka þurfi upp kerfið, því hvatinn til að losna út úr því sé lítill þegar fólk geti lækkað í tekjum við að komast í vinnu.

En hver eru raunveruleg kjör öryrkja? Við spurðum Tryggingastofnun og fengum að vita hvaða tekjur öryrkjar hafa til að framfleyta sér.

Tölurnar sýna krónurnar sem fólk fær í vasann, það er, inni í þeim eru meðal annars allar launa-,lífeyris- og fjármagnstekjur sem öryrkjar hafa, eftir skatta. Eina sem getur bæst við eru húsaleigu, barna- og vaxtabætur, rétt eins og hjá fólki á vinnumarkaði.

Opinbert framfærsluviðmið er hvergi til - en ætla má að ríkið telji fólk geta lifað af atvinnuleysisbótum, sem nú eru fyrir barnlausa rúmar 134 þúsund krónur eftir skatta.

Samkvæmt tölunum frá Tryggingastofnun eru um 2902, eða 18,4% öryrkja með tekjur undir 150 þúsund krónur á mánuði. Sem sagt jafnilla eða verr staddir en atvinnulausir. 6757 eða 43% hafa 150-200 þúsund kr. á mánuði. Um 20%, eða 3147, hafa 200-250 þúsund kr. til að framfleyta sér. Þá eru upp undir 3000 öryrkjar, eða tæpur fimmtungur hópsins alls, yfir meðalmánaðarlaunum í landinu, með 250 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur eða meira. Þar af eru 757 einstaklingar með 350 þúsund krónur eða meira í samanlagðar tekjur eftir skatta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×