Innlent

Árbótarmálið verður rætt í fjárlaganefnd

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Oddný Harðardóttir segir að Árbótarmálið verði rætt í fjárlaganefnd.
Oddný Harðardóttir segir að Árbótarmálið verði rætt í fjárlaganefnd. Mynd/Anton Brink
Árbótarmálið verður rætt í fjárlaganefnd, segir Oddný Harðardóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við Vísi. Fjáraukalög eru nú til umræðu í þinginu og ljóst er að bætur til hjónanna sem ráku meðferðarheimilið Árbót verða ekki greiddar nema að samþykki fáist fyrir því á fjáraukalögum.

„Við þurfum að ræða hvern einasta lið og þetta er einn liðurinn," segir Oddný í samtali við Vísi. Oddný segist ekki vilja tjá sig um skoðanir sínar á málinu að svo komnu. Farið verði yfir málið út frá öllum hliðum.

Pétur Blöndal og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, óskuðu eftir því í gær að málefni vistheimila yrðu rædd á vettvangi félagsmálanefndar Alþingis og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður félagsmálanefndar, hefur boðað til fundar í nefndinni á mánudag.

Árbótarmálið snýst um það að félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra gáfu hjónum sem ráku unglingameðferðarheimilið Árbót í Aðaldal bætur eftir að heimilinu var lokað. Loforðið var gefið í andstöðu við forstjóra Barnaverndarstofu og án þess að óskað væri álits Ríkislögmanns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×