Innlent

ASÍ segir ríkisstjórnina sniðganga kröfur þeirra

Alþýðusamband Íslands segir að ekki blási byrlega varðandi samvinnu ríkisstjórnar og ASÍ fyrir komandi kjaraviðræður. Í yfirlýsingu segir sambandið að í síðustu viku hafi komið í ljós að frumvarp sem hafði verið í smíðum í félagsmálaráðuneytinu frá því í júní varðandi breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, og unnið var með aðkomu aðila vinnumarkaðarins, hafði tekið veigamiklum breytingum. „Án nokkurs samráðs," segir ennfremur.

„Upphaflega frumvarpið hafði það að markmiði að auka réttindi launafólks," segir ennfremur. „Það kvað á um lengingu bótatímabilsins úr 3 árum í 4 ár, að þátttaka í virkum vinnumarkaðsaðgerðum dragist ekki frá bótatímabili, framlengingu ákvæða um hlutabætur og sjálfstætt starfandi auk réttinda vegna 2 vikna orlofs og 5 daga veikindaleyfis án þess að slíkt skerði bætur."

Þá segir að ríkisstjórnin hafi nú gert breytingar á frumvarpinu sem verkalýðshreyfingin telur óviðunandi. „M.a. sett inn ákvæði um að lenging bótatímans í 4 ár nái bara til þeirra sem misstu vinnuna eftir 1. maí 2008. Þessi breyting kemur sér afar illa fyrir marga og þá sérstaklega á Suðurnesjunum en fjölmargir á því svæði misstu vinnuna eftir brottför hersins."

Í ljósi þessa segir ASÍ að lítill trúnaður ríki á milli sambandsins og ríkisstjórnarinnar í aðdraganda kjarasamninga „sem er vægast sagt slæmt veganesti enda búist við erfiðum samningaviðræðum."

Þá segir að ágreingingurinn komi fram á versta tíma og bætist ofan á vanefndir ríkisstjórnarinnar varðandi framlög í Starfsendurhæfingarsjóð. „Forystusveit ASÍ átti fund með oddvitum ríkisstjórnarinnar á föstudag þar sem skilaboð verkalýðshreyfingarinnar til ríkisstjórnar voru skýr; orð skulu standa."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×