Innlent

Ríkið býður út lán í stað þess að semja

Vonir standa til að mikill kraftur færist í vegagerð, einkum að næsta ári liðnu. fréttablaðið/stefán
Vonir standa til að mikill kraftur færist í vegagerð, einkum að næsta ári liðnu. fréttablaðið/stefán
Samningaviðræður ríkisins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun sjóðanna á tugmilljarða vegaframkvæmdum runnu út í sandinn á fimmtudag.

Of mikið bar í milli þess sem ríkið var tilbúið til að greiða og þess sem sjóðirnir vildu fá.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar fer fyrir verkefninu fyrir hönd ríkis­stjórnarinnar. „Við vildum semja út frá Íslandi nútímans þar sem vextir eru að lækka og buðum ákveðna breytilega vexti sem grunnvexti og álag ofan á þá. Það var að okkar mati mjög vel boðið en lífeyrissjóðirnir sögðust í gærmorgun [fimmtudagsmorgun] alls ekki vilja breytilega vexti heldur fasta vexti til fjögurra eða fimm ára. Það réði úrslitum,“ segir Kristján.

Í ljósi þessa hafa stjórnvöld ákveðið að fjármagna framkvæmdirnar með skuldabréfa­útboði. Lánin bera því ríkisábyrgð.

Arnar Sigurmundsson, for­maður Landssamtaka lífeyris­sjóða, segir að í þrjá mánuði hafi legið fyrir að ríkið væri, samhliða viðræðum við sjóðina, að skoða möguleikana á skuldabréfaútboði. „Við vildum semja um fasta vexti enda mikilvægt fyrir lífeyrissjóðina en ríkið vildi breytilega vexti. Við héldum að lending myndi nást en svo slitnaði upp úr. Við vorum ró­legir yfir því enda vissum við að hinn kosturinn væri til staðar.“ Aðspurður segir Arnar það koma í ljós hvort lífeyrissjóðirnir taki þátt í skuldabréfaútboðinu en bendir á að þeir séu stór kaupandi slíkra bréfa.

Arnar og Kristján eru sammála um mikilvægi þess að niðurstaða fáist. Fram undan séu umfangsmiklar framkvæmdir sem að hluta til komi til framkvæmda á næsta ári en einkum árin 2012, 2013 og 2014. Bæði skapi þær störf og auki á umferðaröryggi á nokkrum fjölförnustu leiðum vegakerfisins. bjorn@frettabladid.is
Kristján L. Möller



Fleiri fréttir

Sjá meira


×