Innlent

Spörkuðu ítrekað í höfuð liggjandi manns

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ráðist var á par á Hlemmi og þurfti fólkið aðhlynningu á slysadeild. Mynd/ Stefán.
Ráðist var á par á Hlemmi og þurfti fólkið aðhlynningu á slysadeild. Mynd/ Stefán.
Þrír karlmenn réðust á mann fyrir utan skemmtistað í miðborginni í nótt og slógu hann með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Þá fóru þeir að slá og sparka ítrekað í höfuð þolanda. Mennirnir voru handteknir og verða yfirheyrðir síðar í dag, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Maðurinn sem varð fyrir árásinni var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en ekki er ljóst hversu áverkar hans eru alvarlegir.

Fjórar aðrar líkamsárásir voru gerðar í nótt. Ráðist var á par á Hlemmi með þeim afleiðingum að fólkið var flutt á slysadeild með nokkra áverka. Þrír voru handteknir vegna þeirrar árásar en þeir voru hlaupnir uppi eftir að hafa reynt að flýja af vettvangi. Þessir aðilar gista fangageymslur og bíða þess að verða yfirheyrðir.

Lögreglan segir að nóttin hafi verið erilsöm. Um 100 verkefni af ýmsum toga komu á borð hennar frá miðnætti til klukkan hálfsjö í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×