Innlent

Besti flokkurinn ætlar að skoða hvort Bubbi er bestur

Heiða Helgadóttir útilokar ekki að Besti flokkurinn bjóði fram á landsvísu
Heiða Helgadóttir útilokar ekki að Besti flokkurinn bjóði fram á landsvísu
„Við þurfum bara að sjá hvort hann samræmist því að vera bestur eða ekki," segir framkvæmdarstjóri og varaformaður Besta flokksins um Bubba Morthens, sem hefur lýst því yfir að hann áhuga á því að bjóða sig fram fyrir flokkinn. Besti flokkurinn hefur rætt það innan sinna raða að bjóða fram á landsvísu.

„Það er ekkert útilokað í þeim efnum. Bestir flokkurinn er alltaf lifandi og vakandi yfir því sem er að gerast á Íslandi. Ef það er það besta að bjóða fram á landsvísu þá hugleiðum við það og gerum við það mjög líklega," segir Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdarstjóri og varaformaður Besta flokksins. Hún segir það einnig hafa verið formlega rætt innan flokksins að bjóða fram á landsvísu.

Bubbi Morthens segir í nýútkominni samtalsbók sinni að hann gæti vel hugsað sér að fara í pólitík. Þá sé það Besti flokkurinn sem hugnist honum best. En hvernig líst Heiðu á þetta útspil Bubba?

„Eins og ég segi þá reynir Besti flokkurinn alltaf að gera best og ekki lélegt, þannig að við þurfum bara að sjá hvort það væri best. Ef svo reynist vera þá má skoða það, en hann hefur ekkert formlega haft samband við okkur. Ekki svo ég viti," segir Heiða.

Bubbi segir að Besti flokkurinn heilli sig þar sem þau séu nógu einföld til að geta breytt hlutunum og séu ekki þakin þykku spillingarlagi eins og raunin sé með aðra flokka landsins. Þetta tekur Heiða undir

„Nema kannski þetta með einföld. Ég veit ekki alveg. En jú, kannski verum við dálítið einföld," segir hún.

Tónlistarmenn hafa verið áberandi hjá Besta flokknum og því mætti ætla að Bubbi myndi falla vel inn í þann hóp.

„Við þurfum bara að sjá hvort hann samræmist því að vera bestur eða ekki," segir Heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×