Innlent

Ævisaga Jónínu tvítalin á metsölulista bókaverslana

„Það verður að endurskoða þennan lista," segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Birtingu metsölulista bókaútgefenda, sem unninn er af Rannsóknarsetri verslunarinnar, var frestað í gær vegna athugasemda annarra bókaútgefenda við sölutölur á ævisögu Jónínu Benediktsdóttur eftir Sölva Tryggvason sem verslanir N1 selja.

Jón Gunnar Geirdal, markaðsstjóri N1, segir ekkert athugavert við tölurnar frá fyrirtækinu en á föstudaginn í síðustu viku var greint frá því að starfsmenn bókaverslunarinnar Office 1 hefðu keypt í kringum 300 bækur og haft þær til sölu á hálfvirði. Bókaútgefendur vilja nú vita hvort þau eintök séu tvítalin á metsölulistanum, hvort listinn styðjist við tölur frá bæði N1 og Office 1.

Jón Gunnar vísar því á bug að Office 1 hafi keypt bók Jónínu af lager fyrirtækisins. „Við getum ekkert gert ef einhver kemur í okkar verslun, kaupir þrjár eða þrjú hundruð bækur og selur þær á niðursprengdu verði. Það hafði enginn hjá Office 1 samband við okkur og við höfum ekki neinar nákvæmar tölur yfir hversu margar bækur þeir keyptu. Þessi eintök eru því inni í okkar tölum."



Orð Jóns Gunnars stangast algjörlega á við það sem Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið. „Þetta kemur mér alveg í opna skjöldu," segir Emil. Því til stuðnings vísar hann meðal annars í tölvupóst sem honum barst frá N1 en þar kemur fram að eintökin sem Office 1 keypti yrði ekki inni í tölum frá N1. „Okkur var sagt að það væri ekki verið að telja sömu eintökin," segir Emil. Þegar þetta var borið undir Jón Gunnar sagði hann þetta hljóta að vera misskilning.

Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Egilsson hf. sem rekur verslanir Office 1, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að keypt hefðu verið 300 eintök. Hann segir tvo bílstjóra hafa farið á vegum fyrirtækisins á átta bensínstöðvar og keypt bókina. Eintökin 300 hafi selst upp á föstudaginn. Kjartan upplýsir jafnframt að þessi 300 eintök hafi verið inni í sölutölunum sem sendar voru til Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Kristján Bjarki Jónasson, formaður Félags bókaútgefenda, sagðist í samtali við Fréttablaðið vera orðlaus. „Við báðum um einfaldan hlut, að fá staðfestingu hjá Rannsóknarsetrinu að eintökin væru ekki tvítalin og að listinn væri réttur. Ég leyfði mér bara að trúa þeim."

freyrgigja@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×