Fótbolti

Þjálfari Cluj rekinn fyrir karate-spark - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Sorin Cartu, þjálfari CFR Cluj, var í dag rekinn frá félaginu vegna hegðunnar sinnar á Meistaradeildarleik Cluj og Basel í vikunni. Cartu er þekktur fyrir skapbresti sína og reiðiköst en nú gekk þessi 55 ára gamli Rúmeni of langt.

Umræddur leikur fór fram á St. Jakob-Park, heimavelli Basel og CFR Cluj tapaði honum 1-0 á marki úr víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Tapið þýðir að Cluj endar í neðsta sæti riðilsins og þátttöku liðsins í Evrópukeppnum í vetur lýkur því eftir lokaleik riðilsins á móti Roma.

Sorin Cartu var ekki sáttur með vítaspyrnudóminn og tók sig til og braut plexí-glerið í varamannaskýlinu með karate-sparki að hætti Zlatans Ibrahimovic.

Það má sjá þetta ofsakast þjálfarans í myndbandi sem fylgir fréttinni en það lítur út fyrir að aðstoðarmennirnir séu mjög vanir látunum í þjálfaranum því þeir sýna ekki mikil viðbrögð á meðan þjálfarinn stórskemmir varamannaskýlið.

Sorin Cartu hefur áður látið reiði sína bitna á plexí-gleri í varamannaskýli því fyrir tveimur árum reyndi hann að brjóta glerið með höfðinu en það var kannski eins gott að það tókst ekki. Það má sjá það reiðikast Cartu með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×