Fótbolti

UEFA búið að kæra Mourinho og félaga vegna rauðu spjaldanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hérna má sjá hvernig skilaboðakeðjan virkaði.
Hérna má sjá hvernig skilaboðakeðjan virkaði. Mynd/Vefurinn

Xabi Alonso, Sergio Ramos, Iker Casillas, Jerzy Dudek og Jose Mourinho hafa allir verið kærðir vegna rauðu spjaldanna sem þeir tveir fyrstnefndu eru ásakaðir um að hafa sótt sér í vikunni.

Eins og frægt er orðið fengu þeir Alonso og Ramos sínar síðari áminningar í leik Real og Ajax á þriðjudagskvöldið fyrir að tefja undir lok leiksins.

Með því að næla sér í rautt spjald þá sluppu þeir við að fara með gult spjald á bakinu inn í 16-liða úrslitin. Í staðinn missa þeir af þýðingarlausum leik gegn Auxerre í lokaumferðinni þar sem að Real er þegar búið að tryggja sér sigur í riðlinum.

Fljótlega eftir leik komu fram myndir og myndskeið sem virtust lýsa því hvernig Jose Mourinho, stjóri Real, lét skilaboð berast frá bekknum og inn á völlinn. Enginn nema þeir sjálfir vita hvað þeirra fór á milli en grunsamlegt er það.

Markverðirnir Jerzy Dudek og Iker Casillas hafa einnig verið kærðir því þeir voru hluti af skilaboðakeðjunni frá Mourinho á bekknum og inn til þeirra Ramos og Alonso inn á vellinum.

Tilkynning um kæruna barst frá UEFA í dag og verður málið tekið fyrir á þriðjudaginn næstkomandi.




Tengdar fréttir

Sergio Ramos: Bað ekki um rauða spjaldið

Sergio Ramos, leikmaður Real Madrid, segir að það hafi ekki verið viljandi gert að hann fékk rautt spjald í leiknum gegn Ajax í Meistaradeild Evrópu í gær.

Pantaði Mourinho rauðu spjöldin hjá Ramos og Alonso?

Samsæriskenningarnar voru fljótar að fara í loftið í gær eftir að spænsku landsliðsmennirnir Xabi Alonso og Sergio Ramos létu báðir reka sig útaf fyrir að tefja leikinn í 4-0 sigri Real Madrid á Ajax í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Báðir voru á gulu spjaldi sem hefði kostað þá leikbann í 16 liða úrslitunum ef þeir hefði fengið spjald í lokaleiknum á móti Auxerre, leik sem skiptir Real engu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×