Innlent

Íslendingar bjarga barnslífum

Stefán Ingi og UNICEF-hópurinn setti rautt nef á borgarstjóra Reykjavíkur á dögunum og vonast eftir því að sem flestir fylgi hans fordæmi í næstu viku.
Stefán Ingi og UNICEF-hópurinn setti rautt nef á borgarstjóra Reykjavíkur á dögunum og vonast eftir því að sem flestir fylgi hans fordæmi í næstu viku.
„Með þátttöku í degi rauða nefsins undanfarin tvö skipti hafa Íslendingar bjargað ótal barnslífum og veitt börnum um allan heim tækifæri sem þau hefðu annars ekki fengið og von um betra líf," segir Stefán Ingi Stefánsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Föstudaginn 3. desember er dagur rauða nefsins og mun þá fara fram stærsta sjónvarpssöfnun Íslandssögunnar í beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi.

Stefán Ingi segir að það sé innileg von hans að Íslendingar sýni áfram örlæti sitt í verki föstudaginn 3. desember og staðfesti þar með enn einu sinni hversu annt þeim sé um réttindi barna í hvaða heimshluta sem þau kunna að búa.

„Það er von á ótrúlega skemmtilegum söfnunarþætti þann 3. desember. Þar munu leiða saman hesta sína skemmtikraftar af eldri kynslóðinni og yngri. Það átta sig ekki allir á því hvað við getum lagt af mörkum fyrir börn heimsins. Sem dæmi um hvað UNICEF getur gert fyrir þá styrki sem safnast hafa á degi rauða nefins hingað til, eða hvorki meira né minna en 328 milljónir, má nefna að samtökin geta t.d. bólusett yfir 10 milljón börn gegn mislingum og verndað þau þannig gegn þessum banvæna sjúkdómi. Það eru þrjátíu sinnum fleiri börn en allir Íslendingar til samans."

Hann segir að hjálparstarfið hafi skilað gríðarlegum árangri á undanförnum árum. „Í dag deyja t.d. um fjórum milljónum færri börn yngri en fimm ára á hverju ári en fyrir tveimur áratugum," segir Stefán Ingi.

„Mig langar að þakka þeim listamönnum, fyrirtækjum, tæknifólki, sjálfboðaliðum og öðrum velunnurum sem hafa gert þennan stóra viðburð að veruleika. Stuðningur allra þessara aðila hefur verið ómetanlegur og ótrúlega gaman að upplifa áhuga og metnað allra sem hafa lagt okkur hjálparhönd."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×