Innlent

Barnabók um útrásarvíkinga

Huginn Þór segir að útrásarvíkingarnir hefðu gott af því að lesa bókina um kanínuna sem aldrei fékk nóg.
Huginn Þór segir að útrásarvíkingarnir hefðu gott af því að lesa bókina um kanínuna sem aldrei fékk nóg. Mynd/GVA

„Ef þú spyrð mig, þá á að senda öllum útrásarvíkingunum þessa bók og kannski vakna einhverjir þeirra til lífsins,“ segir Huginn Þór Grétarsson rithöfundur. Hann gefur út fjórar barnabækur fyrir jólin en ein þeirra, „Kanínan sem fékk ALDREI nóg“, minnir óneitanlega mikið á útrásina alræmdu.

„Bókin fjallar um kanínu sem fellur fyrir freistingum og vill alltaf meira og meira. Kanínan sækist eftir grænmeti í bókinni, en það er tákn fyrir auðæfi og peninga. Hún gefur sér aldrei tíma til að borða grænmetið, því hún veit að það er meira af því handan hornsins,“ segir Huginn.

Hann segir að hver geti skilið bókina á sinn hátt. „Börnin sjá gráðuga kanínu og flottar myndir en fullorðna fólkið sér útrásarvíkingana fyrir sér.“

Huginn segist ekki hafa verið með neinn sérstakan útrásarvíking í huga þegar hann skrifaði bókina. „Þeir hlupu á þúsundum, þessir útrásarvíkingar. Þetta ástand var orðið svakalegt,“ segir Huginn, sem sjálfur er lærður viðskiptafræðingur.

„Það er alltaf verið að tala um að grunnskólabörn þurfi að fá fræðslu um siðferði. Bókin er einmitt eitthvað sem gæti komið í veg fyrir að þau falli í þessa gryfju. Við viljum ekki sjá þetta endurtaka sig,“ segir viðskiptafræðingurinn og rithöfundurinn Huginn Þór Grétarsson.- ka




Fleiri fréttir

Sjá meira


×