Innlent

Hefur stjórnað skólakór í 35 ár

Þórunn Björnsdóttir hefur verið kórstjóri Skólakórs Kársness frá tvítugu og heldur ótrauð áfram. fréttablaðið/stefán
Þórunn Björnsdóttir hefur verið kórstjóri Skólakórs Kársness frá tvítugu og heldur ótrauð áfram. fréttablaðið/stefán

Þórunn Björnsdóttir segir það hafa verið gæfuríka ákvörðun þegar hún tók að sér að stjórna Skólakór Kársness fyrir 35 árum.  „Það geta öll börn sungið ef þau fá tækifæri til þess,“ segir Þórunn Björnsdóttir, kórstjóri Skólakórs Kársness.

Þórunn hefur vakið mikla athygli fyrir það frábæra kórastarf sem hún hefur unnið í Kársnesskóla í Kópavogi, en hún hefur stjórnað skólakórnum í 35 ár.

„Ég var rétt rúmlega tvítug þegar ég byrjaði. Ég var nemandi í Skólahljómsveit Kópavogs þegar mér var skipað að fara að stjórna kór,“ segir Þórunn og hlær. „Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í en þetta var gæfurík ákvörðun og það varð aldrei aftur snúið.“

Þórunn velur ekki söngvara í kórinn heldur mega allir nemendur Kársnesskóla vera með. Eins gerir stundaskrá nemenda í 3.-7. bekk ráð fyrir kóræfingum, sem er algjör sérstaða hér á landi. „Margir skólar bjóða ekki upp á tónmenntakennslu og það er mjög dapurt. Það hafa margir krakkar verið í kórnum hjá mér sem síðar hafa haldið áfram í tónlist. Einhverjir þeirra hefðu kannski aldrei vitað að þeir hefðu einhverjar tónlistargáfur og þá hefðu þeir aldrei fengið tækifæri til að þroska þennan hæfileika,“ segir Þórunn, en söngvararnir Emilíana Torrini og Gissur Páll Gissurarson voru til dæmis eitt sinn í skólakór Þórunnar.

Nú fyrir jólin kemur út diskur með Skólakór Kársness sem ber nafnið „Englar í snjónum“, en diskurinn er sá sjöundi sem kórinn gefur út. „Hátt í 200 börn koma fram á þessum diski og allt eru það nemendur úr Kársnesskóla,“ segir Þórunn. Kórinn hefur sungið með mörgum helstu flytjendum landsins og á dögunum kom hann fram á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar. „Það er alveg ógleymanleg lífsreynsla fyrir öll þessi börn að fá að standa í troðfullri Laugardalshöll með öllu þessu þekkta fólki,“ segir Þórunn. Hinn 19. desember verður kórinn með tónleika í Salnum í Kópavogi.

„Við ætlum að syngja lög af nýja disknum í bland við gömul jólalög. Diddú ætlar að koma og syngja með okkur,“ segir hin hógværa Þórunn Björnsdóttir að lokum. kristjana@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×