Erlent

Telur sig geta sigrað Barack Obama

Sarah Palin hefur farið mikinn fyrir Teboðshreyfinguna svokölluðu.
Fréttablaðið/ap
Sarah Palin hefur farið mikinn fyrir Teboðshreyfinguna svokölluðu. Fréttablaðið/ap

Bandaríkin Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaefni repúblikana í Bandaríkjunum, sagði í viðtali við ABC-stöðina í gær að hún gæti sigrað Barack Obama í forsetakosningunum 2012.

Palin kemur nú fram í hverju viðtalinu á fætur öðru þar sem hún segist vera að hugsa sinn gang og íhuga hvort hún ætti að bjóða sig fram til forseta í næstu kosningum. Palin beitti sér mikið í nýafstöðnum þingkosningum í landinu og er hún einn helsti tals­maður Teboðshreyfingarinnar svokölluðu sem skilgreina má sem hægrisinnaða repúblikana. Palin varð þó fyrir áfalli þegar tilkynnt var að Lisa Murkowski hefði sigrað í baráttunni um sæti Alaska, heima­ríkis Palin, í kosningunum sem fram fóru á dögunum.

Murkowski, sem er sitjandi öldungadeildarþingmaður, bar sigurorð af Joe Miller, sem Palin studdi með ráðum og dáð. Murkowski var hins vegar ekki á kjörseðlinum því hún hafði tapað fyrir Miller í forkosningum repúblikana.

Lög Alaska og sumra annara ríkja, leyfa kjósendum að skrifa nafn einhvers annars en þeirra sem eru í framboði á kjörseðilinn og dugði það henni til sigurs. Slíkt hefur ekki gerst í rúmlega fimmtíu ár í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×