Innlent

Þingmenn þiggi bara laun fyrir þingmennsku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir vill að þingmenn þiggi bara laun fyrir þingmennsku á meðan þeir sitja á Alþingi.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir vill að þingmenn þiggi bara laun fyrir þingmennsku á meðan þeir sitja á Alþingi.
Það kemur vel til greina að setja reglur um að þingmenn þiggi ekki önnur laun en fyrir þingmennsku þann tíma sem þeir sitja á Alþingi. Þetta er í það minnsta mat Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í forsætisnefnd Alþingis og menntamálanefnd.

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, er einn þeirra 28 sem þiggja heiðurslaun listamanna á næsta ári. Hann fær tæpar 1600 þúsund krónur frá Alþingi vegna þessa, samkvæmt breytingatillögu sem gerð hefur verið við fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Ákveði Þráinn að greiða atkvæði um fjárlagafrumvarpið mun hann því taka ákvörðun um fjárframlög úr ríkissjóði í eigin vasa. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segist vonast til þess að Þráinn muni sitja hjá þegar að komi að því að greiða atkvæði um þennan lið. Hann hafi ekki haft sig frammi við umræðu um heiðurslaun þegar hún hefur farið fram í menntamálanefnd, en Þráinn á sæti í nefndinni.

Aðspurð segir Ragnheiður að það væri ef til vill eðlilegt að þingmenn þæðu einungis laun fyrir þingmennsku á meðan að þeir sætu á Alþingi. „Þannig að þeir þæðu laun sem þingmenn en ekki fyrir eitthvert annað starf sem þeir gegna einhversstaðar annarsstaðar eða í einhverjum nefndum eða ráðum,“ segir Ragnheiður. Þetta ætti líka við um heiðurslaun listamanna. „Þannig að menn afsöluðu sér þá þeim launum sem þeir þiggja á meðan að þeir gegna þingmannsstörfum. Mér þætti það svona eðlilegast í ferlinu," segir Ragnheiður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×