Innlent

Erlendir fjölmiðlar sýna stjórnlagaþinginu áhuga

Skjáskot af vefsíðu Washington Post
Skjáskot af vefsíðu Washington Post
Nokkrir af stærstu fjölmiðlum heims hafa fjallað um aðdraganda og framkvæmd íslenska stjórnlagaþingsins í dag og í gær.

Á vefútgáfu breska blaðsins Guardian er þingið kallað einstök tilraun í beinu lýðræði þar sem borgarar landsins myndi nýja alþýðusamkomu til að endurskoða stjórnarskrána.

Þar er jafnframt meðal annarra vitnað í Þorvald Gylfason, hagfræðiprófessor og frambjóðanda, sem segir að tryggja þurfi að hrun hagkerrfisins geti aldrei endurtekið sig. Þá er einnig haft eftir verkfræðingnum og frambjóðandanum Þorsteini Arnalds að ástæður hrunsins sé ekki að finna í stjórnarskránni, og að standa þurfi vörð um grunnstoðir samfélagsins, en ekki rífa þær niður.

Í alþjóðaútgáfu Deutsche Welle er einnig fjalla um þingið. Þar er venjulegt fólk sagt munu semja nýja stjórnarskrá og stiklað á þeim málum sem talið er að verði í brennidepli, og aðskilnaður ríkis og kirkju og þjóðareign auðlinda nefnd til sögunnar. Þar segir að þrátt fyrir að niðurstöður þingsins séu ekki binandi lagalega, þá hafi ríkisstjórnin gefið til kynna að þær séu bindandi siðferðilega.

Þá hefur Washington Post einnig fjallað um þingið, en þar er fullyrt að nýja stjórnarskráin verði sannarlega rödd fólksins og íslendingar sagðir afar stoltir af stjórnlagaþinginu, þó sumir líti á þingið sem lýðskrum. Þá vitnar blaðið í Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, sem segir mikilvægt að venjulegir borgarar, sem ekki hafi hagsmuni af óbreyttu ástandi, taki þátt í endurskoðun stjórnarskrárinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×