Innlent

416 þúsund í bensín á ári

Hækkun á verði eldsneytis.
Hækkun á verði eldsneytis.
Eldsneytiskostnaður við meðal fjölskyldubíl verður 416 þúsund krónur á ári, haldist verðið í 208 krónum á lítrann. Fyrir tveimur árum kostaði lítrinn 141 krónu og var árskostnaður miðað við það 282 þúsund. Hækkunin nemur 134 þúsundum, eða 47 prósentum.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) miðar við að meðalnotkun fólksbíls á ári sé 2.000 lítrar og magnast kostnaðurinn upp þegar nýjustu hækkanir á bensínverði eru teknar með inn í reikninginn. Útsöluverð á eldsneyti hækkaði talsvert í gær þar sem lítraverðið á bensíni fór hæst upp í 209 krónur á stöðvum Shell. Olís hækkaði verðið upp í 208 krónur, en verð var að mestu óbreytt hjá N1 og sjálfsafgreiðslu­stöðvunum þar sem lítraverð var um 203,50 krónur.

Eldsneytisverðið hefur því hækkað verulega síðustu daga en Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, segir í samtali við Fréttablaðið að rekja megi þá þróun til hækkana á heimsmarkaðsverði. „Þær hafa verið mjög brattar síðasta mánuðinn, um tíu prósent, en sem betur fer hefur Bandaríkjadalur gefið eftir, því annars hefði hækkunin verið meiri.“

Einar Örn segir að hátt heimsmarkaðsverð megi skýra með kuldakasti í Evrópu, auk þess sem litlar birgðir séu í Bandaríkjunum og mikil eftirspurn frá Asíu.

„Ef maður skoðar síðustu tvö ár hefur heimsmarkaðsverð á bensíni næstum þrefaldast,“ segir Einar Örn og bætir því við að þótt verðið á heimsmarkaði muni eflaust lækka einhvern tíma bendi langtímaspár til þess að olíuverð muni hækka og ekki sé hægt að búast við því að útsöluverð hér á landi muni færast langt niður.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir þær hækkanir þó ekki réttlæta verðhækkun Olís og Shell hér á landi. „Það liggur fyrir að nokkur hækkun hefur verið á mörkuðunum, en við sjáum ekki þessa miklu hækkun í kortunum eins og var hjá Olís og Shell.“

Runólfur bætir því við að ekki sé á bætandi þar sem fyrir liggi auknar skattheimtur á eldsneyti, sem muni sennilega hafa í för með sér verðhækkun upp á fimm og hálfa krónu á lítrann. - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×