Fótbolti

Tottenham áfram í Meistaradeildinni - Crouch með þrennu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Peter Crouch fagnar einu marka sinna í kvöld.
Peter Crouch fagnar einu marka sinna í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Tottenham gerði sér lítið fyrir og vann 4-0 sigur á Young Boys frá Sviss í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld og samanlagt, 6-3.

Þetta er í fyrsta sinn sem Tottenham tekur þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar síðan keppnin hlaut það nafn. Síðast tók Tottenham þátt í Evrópukeppni meistaraliða tímabilið 1961-62.

Young Boys vann fyrri leikinn, 3-2, eftir að hafa komist 3-0 yfir í leiknum. En það var aldrei spurning um hvort væri betra liðið í kvöld.

Fyrsta mark Crouch kom með skalla eftir sendingu Gareth Bale en Jermain Defoe skoraði annað mark Tottenham í leiknum skömmu síðar.

Crouch skoraði svo öðru sinni með skalla í síðari hálfleik og fullkomnaði svo þrennuna með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að brotið var á Bale. Senad Lulic, leikmaður Young Boys, fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið.

Tottenham verður því meðal þeirra 32 liða sem verða í hattinum á morgun þegar dregið verður í riðla í Meistaradeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×