Fótbolti

Ribery miðpunkturinn í vændishneyksli

Elvar Geir Magnússon skrifar
Franck Ribery.
Franck Ribery.

Rannsókn vegna ólöglegrar vændisþjónustu stendur yfir í Frakklandi og mikið fjallað um málið í fjölmiðlum þar sem franskir landsliðsmenn í fótbolta koma við sögu. Franck Ribery, leikmaður FC Bayern, var yfirheyrður vegna málsins.

Samkvæmt heimildum franskra fjölmiðla viðurkenndi Ribery að hafa haft kynmök með sautján ára vændiskonu en samkvæmt frönskum lögum er bannað að kaupa vændisþjónustu af aðila sem er yngri en átján ára. Ribery er sagður hafa neitað því að hafa vitað að stúlkan væri undir aldri.

Engin ákæra var gefin út á Ribery og honum sleppt strax að loknum yfirheyrslum. Karim Benzema, sóknarmaður Real Madrid, og Hatem Ben Arfa, leikmaður Marseille, verða yfirheyrðir sem vitni vegna málsins á næstu dögum.

Franska lögreglan gerði húsleit á Zaman Café í síðustu viku og fann sannanir þess efnis að þar væru við störf ólögráða vændiskonur. Sidney Govou hjá Lyon var einnig yfirheyrður en talsmaður leikmannsins sagði að skjólstæðingur sinn hefði aldrei stigið fæti inn á þennan stað.

Ef einhver er fundinn sekur um að hafa haft kynferðismök við vændiskonu undir lögaldri gæti hann fengið þriggja ára fangelsisdóm og háa fjársekt.

Franska knattspyrnusambandið segir að yfirlýsingu sé ekki að vænta frá sér vegna málsins fyrr en lögreglan hefði lokið rannsókn þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×