Innlent

Árásin í Ásgarði: Fjölskyldufaðirinn var í dópsölu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Einn sakborninganna í fylgd laganna varða við port Héraðsdóms Reykjavíkur. Fjórir voru úskurðaðir í 10 vikna gæsluvarðhald. Annar maður, sem talinn er höfuðpaurinn og hafa skipulagt árásina, gengur laus. Ekki tókst að sýna fram á rökstuddan grun um aðild hans að manndrápstilrauninni.
Einn sakborninganna í fylgd laganna varða við port Héraðsdóms Reykjavíkur. Fjórir voru úskurðaðir í 10 vikna gæsluvarðhald. Annar maður, sem talinn er höfuðpaurinn og hafa skipulagt árásina, gengur laus. Ekki tókst að sýna fram á rökstuddan grun um aðild hans að manndrápstilrauninni.

Fjölskyldufaðirinn í Ásgarði í Bústaðarhverfinu sem bjargaðist naumlega þegar að handrukkaragengi réðst á heimili hans hafði stuttu áður verið í aðstæðum þar sem fíkniefnaviðskipti áttu sér stað. Maðurinn, sem Stöð 2 ræddi við í dag, vildi ekki tjá sig um það í samtali við fréttamann. Lögreglan lítur svo á að um manndrápstilraun hafi verið að ræða.

Mennirnir „heimsóttu" manninn laust eftir klukkan 11 á aðfangadag. Þeir létu öllum illum látum fyrir utan heimili mannsins í Ásgarði, meðan hann sjálfur, kona hans og tvö ung börn voru innandyra. Árásarmennirnir eru allir Íslendingar og fjölskyldufaðirinn einnig. Barið var að dyrum, því næst sparkað og loks, eftir árangurslausar tilraunir, sneru mennirnir til baka með skotvopn, en fréttastofa hefur heimildir fyrir því að um riffil hafi verið að ræða. Tegund hans hefur hins vegar ekki fengist staðfest. Atburðarrásin var hröð því lögregla fékk tilkynninguna 11:41 um að lífi mannsins, barna hans og konu, væri ógnað af herskáu handrukkurunum. Sérsveitin mætti og lögreglan, alls á annan tug lögreglu og sérsveitarmanna, brugðust snarlega við aðstæðum þar sem lífi fjölskyldunnar var ógnað. Ekki liggur fyrir hvort árásarmennirnir, sem eru taldir hafa verið undir áhrifum örvandi eiturlyfja, hafi vitað af börnunum og eiginkonunni. Eftir því sem fréttastofa kemst næst átti það þó ekki að dyljast þeim. Heildarfjöldi lögreglumanna hefur ekki fengist staðfestur. Eins og komið hefur fram var einn lögregluþjónn kýldur í andlitið af einum hinna handteknu og var gert að sárum hans á slysadeild LSH. Árásin er alvarleg í skilningi 218.gr. almennra hegningarlaga. Þá er árás á lögregluþjón brot gegn valdstjórninni. Að sögn sjónarvotta voru árásarmennirnir í dýrum fatnaði og einhverjir þeirra með skartgripi. Eins og sést vel á myndum úr frétt Stöðvar 2 í kvöld er einn sakborninganna flúraður upp allan vinstri handlegginn.

Í millitíðinni, áður en mennirnir sneru aftur með skotvopnið, tókst manninum að komast yfir til nágranna síns í íbúð við hliðina, þetta gerðist eftir að hringt var í neyðarnúmerið 112. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að börn hans og eiginkona hafi komist í skjól um það leyti sem skotárásin hófst. Um fimmtán til tuttugu mínútur liðu þangað til mennnirnir sneru aftur með skotvopnið. Sjónarvottur sem fréttastofa ræddi við sagði að mennirnir hefðu verið hlæjandi. Mennirnir hafi jafnframt öskrað mikið og verið með læti áður en þeir sneru aftur með skotvopnið.

Maðurinn heimsóttur af meintum höfuðpaur

Fjölskyldufaðirinn, sem er á þrítugsaldri, rétt eins og árásarmennirnir fimm hafði dagana fyrir árásina verið heimsóttur reglulega af öðrum manni sem taldi sig eiga inni hjá honum fé. Um er að ræða kröfur, sem í fíkniefnaheiminum og undirveröld Reykjavíkurborgar, eru kallaðar „sektir." Stöð 2 hefur heimildir fyrir því að ástæða þess að maðurinn hafi verið krafinn um þetta fé hafi verið hefndaraðgerð, því klúður mannsins við fíkniefnasölu hafi orðið þess valdandi að annar sölumaður götunnar var handtekinn. Lagt hafi verið hald á fíkniefni sem maðurinn taldi 1,2 milljóna króna virði. Því hafi verið settur upp verðmiði fyrir þessari „sekt." Í þessum heimsóknum, þeirri síðustu á Þorláksmessu, mun fjölskyldufaðirinn hafa fengið þau skilaboð að „einhverjir dópistar" yrðu sendir á hann, samkvæmt heimildum fréttastofu. Maðurinn mun ekki hafa hringt á lögregluna þessa daga á undan því hann hafi viljað „leysa málið sjálfur." Þá mun hann hafa óttast hvað það hefði í för með sér að blanda lögreglu í málið á þessu stigi og viljað athuga hvort ekki hafi verið hægt að leysa „ágreininginn" öðruvísi. Af þessu má draga þá ályktun að maðurinn var allur að vilja gerður að leysa málið og fá frið fyrir þessum „heimsóknum" meints höfuðpaurs án þess að lögregla fengi nokkra vitneskju um málið.

Eiginkona mannsins sem ráðist var á hefur ítrekað neitað því að um fíkniefnaskuld hafi verið að ræða. Heimildir Stöðvar 2 staðfesta það. Ekki hafi verið um eiginlega fíkniefnaskuld að ræða. Því maðurinn hafi ekki skuldað árásarmönnunum eða hinum meinta höfuðpaur neitt fé. Hinn meinti höfuðpaur sem á að hafa skipulagt „heimsóknina" var handtekinn af lögreglunni og krafist var gæsluvarðhalds yfir honum, en dómari Héraðsdóms Reykjavíkur taldi ekki rökstuddan grun vera fyrir hendi um að þessi maður hafi sent mennina fimm í Ásgarðinn með það að markmiði að ráðast á heimili fjölskylduföðurins og ógna lífi hans. Brynjar Níelsson, lögmaður hins meinta höfuðpaurs, sagði við fréttastofu í kvöld að ákæruvaldið hafi ekki getað sýnt fram á rökstuddan grun. Lög um meðferð sakamála séu mjög skýr að þessu leyti. Því var kröfu um gæsluvarðhald hafnað, en hinir fjórir úrskurðaðir í 10 daga gæsluvarðhald. Meintur höfuðpaur gengur því laus.

Lítill í undirheimum

Stöð 2 hefur heimildir fyrir því að hinn meinti höfuðpaur sem synjað var um gæsluvarðhald yfir sé ekki hátt skrifaður af öðrum íslenskum glæpamönnum. Fréttastofa hefur þessar upplýsingar frá lögmönnum sem gæta hagsmuna manna sem þekkja þennan heim mjög náið. Þannig mun hinn meinti höfuðpaur vera kunningi annarra sem komist hafa í kast við lögreglu vegna fíkniefnamisferlis og mun aðgerðin á aðfangadagsmorgun, sem misheppnaðist með þessum hætti, hafa valdið mikilli reiði meðal margra sem standa í víglínunni í íslenskri fíkniefnaveröld. „Gengið hafi verið allt of langt" eins og einn lögmaður orðaði það, en sú skýring á atburðarásinni kemur frá skjólstæðingi hans. Þarna hafi menn ákveðið að gera sig breiða eitt kvöld, neytt mikils magns fíkniefna og ætlað að skapa sér nafn en það misheppnast hrapallega með árásinni sem átti sér stað laust fyrir hádegi daginn eftir. Eftir því sem fréttastofa kemst næst voru árásarmennirnir búnir að djamma alla nóttina. Stöð 2 hefur jafnframt fengið upplýsingar um það, að fjölskyldufaðirinn, sem var smákrimmi í augum hinna stóru í þessum heimi, muni njóta stuðnings frá stórum handrukkurum á Íslandi, ef til þess kemur að hinn meinti höfuðpaur reynist vera sá sem skipulagði árásina og láti til skarar skríða að nýju. Hér er um að ræða einstaklinga sem hafa mikið fé á milli handanna og hafa það í raun að atvinnu að „innheimta."

Þeir fjórir sem sitja í gæsluvarðhaldi eru allir ungir menn í mikilli neyslu, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Mennirnir eru grunaður um tilraun til manndráps, líkamsárás á lögregluþjón, brot gegn valdstjórninni, brot á vopnalögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Mennirnir gætu allir átt yfir höfði sér margra ára fengelsisvist verði þeir ákærðir og fundnir sekir. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

Manndrápstilraun í Bústaðarhverfi: Vildu á aðra milljón í "sekt"

Skotárásin í Ásgarði í gær var tilraun til manndráps, að mati lögreglunnar. Fjölskyldufaðirinn sem varð fyrir árásinni segir börn sín hafa verið lögð í lífshættu. Fjórir menn voru úrskurðaðir í tíu daga gæsluvarðhald, en dómari féllst ekki á varðhald yfir manninum sem grunaður er um að hafa skipulagt árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×