Innlent

Meirihlutinn af tækjunum fenginn að gjöf

Landspítalinn hefur fengið gjafir sem hlaupa á mörg hundruð milljónum króna í ár. Forstjóri spítalans kann velunnurun spítalans bestu þakkir, en segir áhyggjuefni að þurfa að treysta á gjafir við rekstur spítalans.

Mikið af búnaði spítalans er fengnn að gjöf frá alls kyns góðgerðafélögum, fyrirtækjum og einstaklingum, en á fæðingardeildinni einni má meðal annars telja allt frá hitakössum til voga.

Gjafirnar nema hundruð milljónum í ár, en þrjár stærstu gjafir spítalans nema hátt í 200 milljónum einar og sér. Björn Zoega, forstjóri spítalans segir gjafirnar hafa færst í aukana frá því fyrir hrun.

„Það er ívið meira sem er gefið núna. Það er skilningur á því að þörfin er meiri," segir Björn.

Björn segir mikið þakklæti innan spítalans fyrir þennan stuðning, enda sé hann afar þýðingarmikill.

„Spítalinn er auðvitað mjög þakklátur fyrir þá hjálp sem hann fær núna. Við erum í miklum erfiðleikum, það hefur verið mikill niðurskurður og við höfum fengið óvenjulítið af peningum til tækjakaupa síðustu ár. Þess vegna viljum við sýna okkar þakklæti, sérstaklega núna yfir jólin, fyrir þessar miklu gjafir sem við höfum fengið."

„Ég vil nú halda því fram að meiriparturinn af tækjunum sem við erum með í notkun núna hafi komið með gjöfum af einhverri tegund," segir Björn.

Björn hefur þó áhyggjur af því að þurfa að treysta á gjafir upp að þessu marki við rekstur spítalans.

„Auðvitað höfum við áhyggjur af því. Tækjakostur okkar er orðinn gamall, þó þetta hjálpi til. Við höfum auðvitað áhyggjur af því að ef ekkert verður gefið í á næstu árum, þá munum við lenda í vandræðum á endanum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×