Erlent

Neyðarástand á flugvöllum í Evrópu

Sumir farþeganna þurftu að gista í flugstöðinni í nótt. Mynd/AFP
Sumir farþeganna þurftu að gista í flugstöðinni í nótt. Mynd/AFP
Þúsundir ferðalanga eru fastir á flugvöllum víða um Evrópu. Frost og snjókoma veldur því að flugferðum hefur verið seinkað og aflýst. Rýma varð flugstöðvarbyggingu á Charles de Gaulle flugvellinum í París í gær vegna hættu á að þak byggingarinnar myndi hrynja vegna snjóþyngsla.

Fjórir létust þegar þetta sama þak, á sömu byggingu á Charles de Gaulle flugvelli gaf sig árið 2004, en þá var flustöðvarbyggingin ný opnuð. Það voru því engar áhættur teknar í gær, tvö þúsund manns var gert að yfirgefa bygginguna og þakið hreinsað, en á því lá um 60 sentimetra snjólag.

Og það er ekki bara veðrið sem valdið hefur truflunum á Charles de Gaulle. Þar urðu menn einnig uppiskroppa með afísingarvöka vegna verkfalls starfsmanna sem framleiða vökvann. Hundruða fluga frá vellinum var aflýst af þeim sökum í gær og talið er að ferðaáætlanir um 30 þúsund manna hafi farið úr skorðum.

Góðu fréttirnar eru þær að flugfarmur með afísingarvökva var flogið frá Bandaríkjunum til Þýskalands í gær og hann svo fluttur með flugtningabílum til Parísar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×