Innlent

„Allar viljum við líta þokkalega út“

Röð myndaðist fyrir utan Fjölskylduhjálp Íslands síðdegis þegar fyrstu pokum af jólamat var úthlutað til þeirra sem ekki eiga fyrir jólasteikinni. Rúmlega 300 fjölskyldur fengu jólaaðstoð. Á morgun verðu konum boðið upp á litun og plokkun augabrúna.

Það var nóg að gera í fyrstu jólaúthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni í dag, sjálfboðaliðar röðuðu kræsingum skipulega ofan í pokana, kjöti, kartöflum, Malti og Appelsíni og flestu því sem við á að éta um jólin. Hver á fætur öðrum rogaðist út með úttroðna poka af jólagóðgæti en ekki er þó hægt að segja að gleðibragur hafi verið á þiggjendum.

Búist er við að hátt í 2000 fjölskyldur fái jólamatinn hjá Fjölskylduhjálpinni að þessu sinni, í Reykjavík, á Reykjanesi og á Akureyri. Sumir fá gott betur en jólamatinn á morgun mætir hópur fólks frá Snyrtiskóla Kópavogs og býður konum upp á litun og plokkun augabrúna. Uppbókað er í alla tíma.

„Við erum svolítið uppáfinningasamar hér í Fjölskylduhjálpinni og reynum alltaf að finna hvar þörfin er og hvað það er sem fólk þarf. Og það er alveg óháð því hvort konur eru ríkar eða fátækar. Allar viljum við líta þokkalega út," segir Ásgerður.

Þeim fjölgar vinnandi fólki sem sækir aðstoð til Fjölskylduhjálpar, segir Ásgerður, en þar er miðað við að fólk sé með undir 150-80 þúsund krónum í mánaðartekjur.

„Það eru sem betur fer alltar fleiri og fleiri að stíga fram. Það eru fleiri og fleiri sem hugsa: ég á ekki að skammast mín fyrir þetta," segir Ásgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×