Innlent

Stjórnarliðar tókust hart á

Ósætti órólegu deildarinnar í Vinstri grænum við ríkisstjórnina hefur síst minnkað eftir flokksráðsfund flokksins um helgina. Stjórnarliðar tókust hart á um efnahagsmál á Alþingi í dag.

Tekist var á um nokkur grundvallarmál á flokksráðsþingi Vinstri grænna um síðast liðna helgi. Hluti flokksráðsins sem kenndur er við óróleikadeild flokksins varð þar undir í atkvæðagreiðslu um tillögur í Evrópumálum, en þar með er ekki sagt að vandræði ríkisstjórnarinnar með þau mál séu úr sögunni. Víst er að deilt verði um alla styrki sambandsins sem ráðherrar Samfylkingarinnar kunna að þiggja frá sambandinu og ásakanir um aðlögunarferli haldi áfram.

„Almennt er það auðvitað þannig að ríkisstjórnin samþykkir þessi verkefni. Þannig að það kemur allt til umfjöllunar fyrst í ráðherranefnd um Evrópumál og síðan í sjálfri ríkisstjórninni. Þannig að við munum fara yfir það eftir því sem efni standa til í hverju tilviki," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Þá vakti athygli vakti að borin var fram tillaga í flokksráðinu um að fjárlagafrumvarpið yrði endurskoðað, en fyrir því fer formaður flokksins. Ögmundur Jónasson sem er ókrýndur leiðtogi óróleikadeildarinnar mælti með tillögunni um fjárlögin, sem verður að teljast sérstakt þar sem frumvarpið er afgreitt af ríkisstjórn.

Gagnrýndi fjármálaráðherra

Pirringurinn milli óróleikadeildarinnar og annarra stjórnarþingmanna sýndi sig á þingi í dag. Stjórnarliðinn Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, hélt áfram að gagnrýna fjármálaráðherra og aðra í ríkisstjórninni fyrir að hlusta ekki á tillögur hennar í efnahagsmálum í stað þess að fylgja áætlun AGS.

„Ein alvarlegustu mistökin voru að taka ekki strax á skuldavanda heimila og fyrirtækja eins og Framsóknarflokkurinn þrýsti á. Slík aðgerð hefði verið hraðvirk og tryggt bæði eftirspurn og sátt í samfélaginu," sagði Lilja.

Ekki hægt að kenna AGS um stöðu mála

En stjórnarliðinn í sæti formanns efnahags- og skattanefndar var ekki sáttur við málflutning samherja síns í stjórnarliðinu, og sagði Lilju ekki geta kennt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um stöðu mála.

„Hvorki mun það vera svo að það að halda áfram að safna skuldum og forðast erfiðar ákvarðanir um niðurskurð eða hækka skatta frekar eins formaður viðskiptanefndar hefur lagt til, það mun ekki skapa hér hagvöxt. Það sem mun koma hjólum efnahagslífsins að stað er fjárfesting og ekki síst erlend fjárfesting," sagði Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar og þingmaður Samfylkingarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×