Innlent

Mega halda hænur í Seljahverfi en ekki á Hjallavegi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hænurnar eru haldnar í kofa við Hjallaveginn. Mynd/Stefán
Hænurnar eru haldnar í kofa við Hjallaveginn. Mynd/Stefán
Borgarráð staðfesti í gær úrskurð um að konu sem heldur fjórar landnámshænur á Hjallavegi í Reykjavík væri óheimilt að hafa þær þar.

Guðrún Þura Kristjánsdóttir hefur haldið hænurnar Lukku, Grímu, Bíbí og Gæfu í kofa sem Guðrún notaði áður fyrir kanínur og stendur nærri íbúðarhúsinu í stórum bakgarði við Hjallaveginn. Kona í nágrenni við Guðrúnu kvartaði yfir hænunum en Guðrún segir alla jákvæða í garð hænsnanna fyrir utan þessa einu konu.

Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar kvað á dögunum upp þann úrskurð að hefð væri fyrir því að flokka hænsnfugla sem húsdýr, en ekki gæludýr. Því væri Guðrúnu óheimilt að halda dýrin við heimili sitt í miðri borginni. Guðrún skaut málinu til borgarráðs sem staðfesti úrskurð skipulags- og byggingarsviðs í gær.

Í umsögn borgarráðs frá því ð gær segir að niðurstöður umhverfis- og samgönguráðs sem fer með hlutverk heilbrigðisnefndar séu staðfestar en borgarráð bendir jafnframt á að hænur eru leyfðar, s.s. á Kjalarnesi og efst í Seljahverfi. Þá beinir borgarráð því til nýrrar heilbrigðisnefndar að kanna hvort ástæða er til að taka samþykktir um búfjárhald og gæludýrahald til endurskoðunar eða leyfa aukið dýrahald á völdum svæðum í borginni með breytingum á skipulagi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×