Innlent

Lá við stórslysi á Norðurlandsvegi

Minnstu munaði að fimm manns til viðbótar yrðu fyrir sama bílnum og ók á karl og konu á Norðurlandsvegi í Víðidal í Húnavatnssýslu í gærkvöldi. Hin slösuðu voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landsspítalan í Reykjavík og reyndust ekki eins alvarlega slösuð og óttast var í fyrstu.

Atburðarrásin hófst með því að bíll á leið til Reykjavíkur, með fimm manns um borð, rann í flug hálku út af veginum. Tveir menn í næsta bíl komu til aðstoðar og náðu að draga bílinn upp á veginn aftur. Allir höfðu farið út úr báðum bílunum og var verið að gera upp tógið, þegar bíll nálgaðist á lítilli ferð. Skyndilega sást hvar annar bíll þeyttist fram úr honum og stefndi beint á allan hópinn.

Tóku þá allir til fótanna í allar áttir og skall bíllinn aftan á bílnum, sem hafði verið dreginn upp, en hann kastaðist á ökumanninn, sem féll í götuna og slasaðist. Þaðan þeyttist aðkomubíllinn út fyrir veg og lenti þar á konu, sem var á flótta, ók hana niður og staðnæmdist, en þá var konan hálf undir bílnum. Læknir, sem var staddur á vettvangi, kallaði þegar eftir björgunarliði frá Blönduósi og Hvammstanga, og eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem flutti hin slösuðu á Landsspítalann í Reykjavík.

Töluverðar umferðartafir urðu á meðan lögregla og björgunarmenn voru að athafna sig á staðnum , og segir vegfarandi, sem var á vettvangi, að bíllinn, sem olli öngþveitinu, hafi verið á lélegum dekkjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×