Innlent

Mannréttindadómstóll Evrópu fjallar um mál íslenskra blaðamanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Ingi Jóhannsson er lögmaður Bjarkar og Erlu.
Gunnar Ingi Jóhannsson er lögmaður Bjarkar og Erlu.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til meðferðar tvær kærur blaðamanna gegn íslenska ríkinu. Annars vegar er um að ræða mál Bjarkar Eiðsdóttur blaðamanns gegn íslenska ríkinu. Það er svokallað Vikumál, þar sem Björk hlaut dóm fyrir meiðyrði, en stefnandi þess máls var eigandi nektarstaðarins Goldfinger í Kópavogi.

Hins vegar er það mál Erlu Hlynsdóttur, fyrrverandi blaðamanns á DV og núverandi blaðamanns á Vísi, gegn íslenska ríkinu, vegna dóms sem hún hlaut fyrir meiðyrði, en stefnandi þess máls var eigandi nektarstaðarins Strawberries í Lækjargötu.

Gunnar Ingi Jóhannsson er lögmaður Bjarkar og Erlu. Hann segir í samtali við Vísi að lögð verði fram skaðabótakrafa í málinu. Ekki liggi fyrir hversu há sú krafa verði.

„Íslenska ríkið hefur frest til 16. febrúar næstkomandi til þess að skila inn athugasemdum sínum og þær athugasemdir verða sendar okkur til umsagnar fyrir hönd kæranda. Þá munum við setja fram um leið bótakröfur fyrir hönd kærenda. Síðan er mjög líklegt að málið gangi til dóms," segir Gunnar Ingi í samtali við Vísi.

Íslenska ríkið þarf að svara spurningum um það hvort Hæstiréttur hafi beitt þeim viðmiðum og rökum sem samræmast 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þegar niðurstaða fékkst í máli Bjarkar Eiðsdóttur og hvort brýna nauðsyn hafi borið til að takmarka tjáningarfrelsi blaðamannanna. Íslenska ríkið þarf einnig að taka afstöðu til þess hvort hægt sé að semja í málunum.

Tvö önnur mál eru til meðferðar hjá mannréttindadómstólnum, en aðili að þeim báðum er blaðamaðurinn Erla Hlynsdóttir. Lögmenn Höfðabakka reka öll málin fyrir blaðamennina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×