Innlent

Tekur ekki sæti í Garðabæ: „Ég segi nei takk og gangi þeim vel"

Ragný Þóra Guðjohnsen tekur ekki sæti á lista Sjálfstæðismanna í Garðabæ.
Ragný Þóra Guðjohnsen tekur ekki sæti á lista Sjálfstæðismanna í Garðabæ.

Lögfræðingurinn Ragný Þóra Guðjohnsen, sem sóttist eftir 2-3 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að taka sjötta sætinu þar sem hún endaði í prófkjörinu en hún hefur verið varabæjarfulltrúi flokksins síðan 2002.

„Ég segi nei takk og gangi þeim vel," svarar Ragný þegar hún er spurð hvort hún ætli að taka sjötta sætinu en athygli hefur vakið að listi Sjálfstæðismanna í Garðabæ samanstanda af fjórum karlmönnum í fjórum efstu sætunum. Í því fimmta er fyrsta konan, það er Áslaug Hulda Jónsdóttir en ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.

Ragný segir að það hafi verið staðið til frá upphafi að hún myndi ekki taka sæti á listanum ef hún hlyti ekki brautargengi í prófkjörinu. Sjálf bendir Ragný á að hún hafi átta ára reynslu af bæjarmálum í Garðabæ, því sóttist hún eftir föstu sæti.

En nú skilar prófkjör Sjálfstæðismanna fjórum körlum í efstu fjögur sætin annað kjörtímabilið í röð.

„Kjósendur virðast ekki hafa verið að hugsa um hag flokksins í prófkjörinu enda ekki beint sölulegur listi," segir Ragný um kvenmannsleysið á lista flokksins.

Hún segir enga endurnýjun heldur hafa átt sér stað á listanum og að auki þá er aldursdreifing lítil, fjögur efstu sætin samanstanda af karlmönnum á fimmtugs og sextugsaldri.

Það var Erling Ásgeirsson sem hlaut fyrsta sætið í prófkjörinu en gríðarlega góð þátttaka var í því. Alls kusu 1700 flokksmenn Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í prófkjörinu og því var kjörsókn um 60 prósent.

Þar sem Ragný tekur ekki sæti á listanum þá er aðeins ein kona eftir í sex efstu sætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×