Innlent

Verjandi Geirs vill að málið verði fellt niður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verjandi Geirs segir að skipa hefði átt saksóknara á síðasta þingi. Mynd/ GVA.
Verjandi Geirs segir að skipa hefði átt saksóknara á síðasta þingi. Mynd/ GVA.
Verjandi Geirs Haarde, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, vill að Alþingi felli niður málshöfðun gegn Geir vegna meintra brota á ráðherraábyrgð. Þetta kemur fram í bréfi sem Andri Árnason, lögmaður Geirs, sendi forseta Alþingis í fyrradag, samkvæmt heimildum Vísis.

Ástæðan er sú að Andri telur að skipa hefði átt saksóknara í málinu gegn Geir á sama tíma og Alþingi samþykkti málshöfðunina gegn honum. Í þrettándu grein laga um landsdóm segir að ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra skuli gerð með þingsályktun í sameinuðu þingi, og skuli kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni, enda sé sókn málsins bundin við þau. Jafnframt kjósi Alþingi mann til að sækja málið af sinni hendi, og annan til vara, ef hinn kynni að forfallast.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þingmannanefnd Atla Gíslasonar gengu út af fundi nefndarinnar í dag þegar að ræða átti um skipan saksóknara. Þeir telja að samkvæmt lögum um þingmannanefndina hafi hún ekkert umboð til að starfa á þessu þingi og geti því ekki tilnefnt saksóknara.

Vísir hefur reynt að ná tali af Andra Árnasyni, verjanda Geirs, í dag án árangurs.












Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×