Erlent

Fundu 31 árs gamalt svarthol

Sprengistjarnan SN 1979C í þyrilvetrarbrautinni M100.
mynd/nasa/cxc/jpl/eso
Sprengistjarnan SN 1979C í þyrilvetrarbrautinni M100. mynd/nasa/cxc/jpl/eso

Stjarnvísindamenn telja sig hafa fundið yngsta svarthol sem vitað er um í námunda við vetrar­brautina okkar. Til þess notuðu þeir Chandra-röntgengeimsjónauka NASA. Svartholið varð til þegar stjarna sprakk árið 1979 og er því 31 árs gamalt.

Árið 1979 sáu stjörnuáhugamenn stjörnu springa í þyrilþokunni M100 sem er í 50 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi.

Sprengistjarnan hlaut nafnið SN 1979C og er svart­holið leifar hennar. Uppsprettan var stöðug í þau tólf ár sem mælingar stóðu yfir, frá 1995 til 2007. Það bendir til þess að þar sé nú svarthol sem sé að gleypa nærliggjandi efni, annað hvort leifar stjörnunnar sem sprakk eða fylgistjörnu.

Uppgötvunin veitir stjörnufræðingum einstakt tækifæri til rannsókna. „Sé túlkun okkar rétt er hér um að ræða nærtækasta dæmið um myndun svarthols sem við höfum orðið vitni að,“ segir Daniel Patnaude við Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics í Cambridge í Massachusetts, en hann hafði umsjón með rannsókninni.

Talið er að sprengistjarnan hafi orðið til þegar stjarna, tuttugu sinnum massameiri en sólin, féll saman. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×