Innlent

Hvítárbrú fagnað með gulrótum og tómötum

Árnesingar fögnuðu opnun nýju brúarinnar yfir Hvítá við Flúðir í dag. Garðyrkjubændur gáfu skólabörnum beggja megin ár grænmeti fram að jólum í tilefni dagsins.

Heimamenn segja að brúin sé með stærstu samgöngubótum á Suðurlandi í áraraðir en hún var opnuð umferð í morgun. Með henni styttast leiðir innan héraðs umtalsvert, til dæmis um 26 kílómetra milli þorpanna á Flúðum í Hrunamannahreppi og í Reykholti í Biskupstungum.

Íbúar sveitanna tveggja skunduðu út á brúna nú síðdegis til að faðmast og þiggja kaffi og kleinur af Tungnakonum og garðyrkjubændur mættu með flutningabíl, hlaðinn gulrótum og tómötum héraðsins, til að gefa börnum sveitanna, og afhentu grænmetið matráðsmönnum skólanna.

Í ferðaþjónustu sjá menn fram á aukin viðskipti með brúnni. Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, segir að nú opnist nýir hringir. Til viðbótar við hinn eina og sanna gullna hring séu nú komnar gullnar keðjur. Ásamt nýja Lyngdalsheiðarveginum auki nýja Hvítárbrúin fjölbreytni á svæðinu og fólk geti keyrt fleiri leiðir.

Þótt brúin sé tilbúin er vegagerð að henni ekki lokið en beðið verður fram á næsta sumar með malbikun. Fyrir um fimmtíu starfsmenn verktakans, Ræktunarsambands Flóa og Skeiða, þýða verklok hins vegar óvissu um frekari vinnu, að sögn Kjartans Þorvarðarsonar verkstjóra. Þar séu nánast allir á uppsagnarfresti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×