Innlent

Sakar Gunnar um lýðskrum

Guðríður Arnardóttir er formaður bæjarráðs Kópavogs.
Guðríður Arnardóttir er formaður bæjarráðs Kópavogs.
Fjárhagsáætlun Gunnars Birgissonar einkennist af lýðskrumi og er að mörgu leyti óraunhæf, segir formaður bæjarráðs í Kópavogi. Ekki verði komist í gegnum 800 milljóna króna hagræðingu án þess að hækka gjaldskrár.

Gunnar Birgisson bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs segir að fjárhagsáælun meirihlutans sé árás á ungar barnafjölskyldur og íþróttafélög bæjarins. Hann vill ganga mun skemur í skattahækkunum og hefur lagt fram sína eigin fjárhagsáætlun.

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs í Kópavogi gefur lítið fyrir hugmyndir Gunnars. „Mér finnst það nú einkennast mest megnis af popúlisma þessi áætlun sem hann er að setja fram. Margt í þessu hjá honum er frekar óraunhæft. Hann er með flatar niðurskurðartillögur á flesta liði. Og það sem hann er að leggja til núna það höfum við skorið af fyrir ári síðan. Það er ekki eftir miklu að slægjast í grunnskólunum. Þannig að við höfum reynt að setja þetta þannig upp að fara í frekari strúktúrbreytingar og skipulagsbreytingar heldur en að ráðast í þennan flata niðurskurð," segir Guðríður.

Kópavogur er mjög skuldsett bæjarfélag en meirihlutinn stefnir að því að lækka skuldir um 1 milljarð á næsta ári. Guðríður segir brýnt að setja fram raunhæfa áætlun sem miði að því.

Fjárhagsáætlunin er lögð fram af ellefu bæjarfulltrúum og unnin í nánu samstarfi við starfsfólk bæjarins, að sögn Guðríðar. „Hún er raunhæf og við miðum hana við þær aðstæður sem við erum að takast á við. Það er ekki hægt að komast í gegnum 800 milljóna króna hagræðingu án þess að hækka gjaldskrár," segir Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×